145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur hv. þm. Páll Valur Björnsson farið í sannkallaðri eldmessu yfir valkvæðu bókunina. Í reynd hafa í þessari umræðu engin rök komið fram gegn því að fullgilda hana samhliða samningnum sjálfum. Hv. þingmaður sagðist eðlilega vera mjög súr yfir því. En kynni að vera að það sé samt sem áður, miðað við að þessari umræðu er ekki lokið, möguleiki á því að gera það? Enginn hefur mælt gegn því. Hæstv. félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir er viðstödd umræðuna. Ég held að hjarta hennar slái þannig að það kynni að vera mögulegt, miðað við þau rök sem hv. þingmaður hefur flutt fyrir máli sínu, að fá hana til þess að taka ákvörðun og beita sér fyrir því að í atkvæðagreiðslu hér á eftir verði þetta samþykkt. Mundi t.d. maður eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson leggjast gegn því? Ég á mjög erfitt með að sjá það.

Það sem mér finnst hafa skýrst í þessari umræðu er að hér er um mjög einfalda athöfn að ræða. Það er ólíklegt að staðfesting eða fullgilding valkvæðu bókunarinnar mundi hafa neinn annan nýjan kostnað í för með sér fyrir ríkið umfram það sem staðfesting samningsins sjálfs felur í sér. Ef ég má gefa hv. þingmanni ráð er það að fara núna og tala við hæstv. ráðherra á meðan hann er heitur og kanna hvort ekki sé grundvöllur fyrir enn ríkari samstöðu sem nær ekki bara til samningsins heldur líka til valkvæðu bókunarinnar og kanna í ljósi þessarar málefnalegu umræðu hvort ekki sé að skapast grundvöllur fyrir því að ganga frá því hér á eftir að valkvæða bókunin verði líka staðfest. Ella verðum við að fara fram á það að hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) sem er hér við umræðuna, færi rök gegn því.