145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég byrja eins og aðrir á því að fagna því að þetta mál sé komið á þetta stig. Ég vænti þess að það fái hér mildilega afgreiðslu. Mér finnst rétt að minnast á að það er fagnaðarefni að mál eins og þessi séu óumdeild. Það hefur þó gerst í mannkynssögunni að þótt hefur heldur sjálfsagt að mismuna fólki á ýmsum grundvelli, reyndar mestalla mannkynssöguna, næstum því alls staðar.

Við getum fagnað því að lifa á tímum þar sem viðleitnin er sú að draga úr órétti, ójafnræði og óréttlæti af hvaða tegund sem er. Ég vil þó minna á um hvað málið fjallar því að ég hef ekki enn þá heyrt neinn telja það upp. Ég ætla að lesa hérna upp þau réttindi sem samningurinn fjallar sérstaklega um, sem er þó nokkur listi:

Jafnrétti og bann við mismunun.

Réttur til lífs, frelsis og mannhelgi.

Réttarstaða til jafns við aðra.

Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Frelsi frá því að sæta misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

Réttur til líkamlegrar og andlegrar friðhelgi.

Ferðafrelsi og réttur til ríkisfangs.

Réttur til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu.

Skoðana- og tjáningarfrelsi.

Virðing fyrir einkalífi.

Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.

Réttur til menntunar.

Réttur til heilsu.

Réttur til vinnu.

Réttur til viðunandi lífskjara.

Réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi.

Réttur til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.

Ástæðan fyrir því að ég les þetta hérna upp er sú að þetta eru allt réttindi sem fólk tekur jafnan sem sjálfsögðum hlut. Það hljómar ekki eins og eitthvað sem við ættum að þurfa að berjast sérstaklega fyrir árið 2016, en það er samt þannig af einhverjum ástæðum. Það er því gleðiefni að við séum að gera það þótt seint sé.

Þegar kemur að þessum málaflokki finnst mér líka þess virði að horfa aðeins inn á við og minna sig á hvað það er sem klikkar, hvað það er sem veldur óréttlætinu. Það er nefnilega misjafnt milli hópa. Vissulega eru fordómar gagnvart fötluðu fólki til staðar, fordómar af ýmsu tagi og ýmsir hlutir sem fólk gerir á hlut fatlaðs fólks af einskæru tillitsleysi. Svo ég nefni einfalt en því miður algengt dæmi er þegar bílastæði fatlaðs fólks eru notuð af fólki sem ekki er fatlað og þarf ekkert að nota slík bílastæði. Slíkt er ef til vill sambærilegt við það tillitsleysi og skeytingarleysi sem endurspeglast í fordómum gagnvart ýmsum öðrum hópum í gegnum tíðina eins og t.d. gagnvart konum eða hinsegin fólki, börnum, öldruðum, og svo mætti lengi telja. En þegar kemur að fötluðu fólki er svo mikilvægt að við áttum okkur á því að það er ekki nóg fyrir okkur að draga úr þessum fordómum. Við þurfum að leggja til vinnu og hafa áhuga á að draga úr órétti sem þetta fólk verður fyrir. Þegar kemur t.d. að meginatriðunum, að jafnrétti kynjanna er mikilvægast að draga úr því sem við sem einstaklingar gerum rangt. Þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks er það ekki nóg. Við þurfum vissulega að gera það, en það er ekki nóg. Við þurfum líka að passa að samfélagið sjálft sé hannað fyrir fatlað fólk. Það eru t.d. einfaldir hlutir eins og að hafa dyr nógu breiðar, að hafa salernisaðstöðu þannig að fatlað fólk geti notað hana, að hafa bílastæði fyrir fatlað fólk og fleira í þeim dúr. Það þarf að vinna að því að laga. Það má ekki gleyma því. Þetta er ekki bara spurning um að hætta að beita fordómum, eða hvað það er.

Vandinn er í sjálfu sér ekki bara hvað við gerum, heldur líka hvað við gerum ekki. Það er munur á því að ætla að veita einhverjum frelsi með því að beita hann ekki ófrelsi annars vegar og hins vegar því að frelsa þann sem er ranglega fangelsaður. Tökum fyrir skýrustu myndina sem ég get hugsað mér: Við stærum okkur ekkert sérstaklega af því að ganga frjáls um götur bæjarins vegna þess að við höfum ekki verið sérstaklega fangelsuð. Það felst enginn kostnaður í að tryggja það frelsi. Þvert á móti. Það fælist kostnaður í að taka það burt. Þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks þurfum við að átta okkur á því að við eigum frekar að líta á það eins og að einhver hafi verið beittur ófrelsi og við þurfum að laga það. Það kostar erfiði. Það kostar athygli og oft og tíðum peninga. Við þurfum að vera algerlega reiðubúin til þess að inna það starf af hendi og gera það sem gera þarf til þess að tryggja frelsi þessa fólks, því þegar allt kemur til alls snýst þetta um frelsi.

Þegar þetta ágæta mál verður samþykkt, og ég segi þegar, er mikilvægt einnig að við fylgjum því eftir því að sú töf sem orðið hefur á málinu finnst mér benda til ákveðins skeytingarleysis. Og eins og ég sagði áðan hafa þingmenn allra þingflokka kvartað undan þessu og viljað fá þennan samning fullgiltan, en það hefur tekið alveg fáránlega langan tíma. Ég leyfi mér að nota þau orð, virðulegi forseti; alveg fáránlega langan tíma. Það er engin ástæða til að bíða svona lengi. Þetta er bara skeytingarleysi sem fær einhvern veginn að viðgangast. Ég óttast að eftir að málið verður samþykkt verði skeytingarleysi gagnvart þeim lagabreytingum sem þarf síðan að fara í. Hv. þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp sem varðar þetta mál en það fékk því miður ekki framgöngu. En þau eru fleiri, eins og fram kemur í greinargerð tillögunnar. Það er mjög mikilvægt að þessi frumvörp verði lögð fram á komandi kjörtímabili og samþykkt. Þá vil ég sérstaklega nefna frumvarp til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun. Það er nokkuð sem tekur tíma og erfiði að búa til og þá er mikilvægt að það sé gert, að ekki sé bara beðið með það vegna þess að við erum búin að klappa okkur á bakið fyrir að fullgilda þennan samning. Ég óttast svolítið að sú verði raunin. Það virðist vera mynstrið.

Eins og ég sagði áðan fagna ég því hversu óumdeilt þetta er. Mér finnst því gleðiefni að sjá mál sem mér og mörgum öðrum finnst sjálfsagt. Mér finnst ýmislegt mjög sjálfsagt sem er þó umdeilt. En þetta er óumdeilt, sama hversu sjálfsagt einum og einum þingmanni finnst það. Það er gleðiefni. Þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna ekki er lagt til að samþykkja einnig valkvæða viðaukann. Hv. þm. Páll Valur Björnsson, sá sérstaklega háttvirti þingmaður, hefur lagt fram breytingartillögu um að þessi valkvæði viðauki verði einnig samþykktur. Eins og hann vék hér að í ræðu sinni komu engin rök fram gegn því í greinargerðinni. Þar er einfaldlega fullyrt að það verði ekki samþykkt að svo stöddu án þess að þar komi einhver rök. Í andsvörum áðan spurði ég hv. þingmann hvort hann gæti ímyndað sér einhver rök eða hvort hann hafi heyrt af einhverjum rökum. Hann kom fram með ákveðna tilgátu, sem reyndar var byggð á afspurn — við skulum nú kannski ekki alveg trúa því sjálfkrafa, maður á ekki sjálfkrafa að trúa illu upp á annað fólk. En það er klárlega umhugsunarefni sem hann sagði. Eins og sést í greinargerð var ákveðið að samþykkja hann ekki. Það er ekki eins og hann hafi gleymst. Tekin var meðvituð ákvörðun um að gera það ekki. Mér finnst það skrýtið og pínulítið áhugavert í ljósi þess hversu óumdeild fullgilding samningsins sjálfs er. Ég hlakka til — eða kvíði fyrir eða bæði, ég veit ekki alveg hvort — að heyra hvað það er sem stendur í vegi fyrir því. Þarna er á ferðinni mál sem ég held að ríki eins og Ísland ætti léttilega að geta staðið við. Það felur í sér réttarbætur fyrir fatlað fólk. Annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg og kerfisbundin brot gegn samningnum með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ég hefði haldið að Ísland ætti ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því. En þar sem ég veit hvernig farið er með fólk á Íslandi kæmi mér heldur ekki á óvart að það væri full þörf fyrir þetta, vonandi ekki oft, en það kæmi mér ekkert á óvart að það gerðist. Íslendingar eru ekki jafn ofboðslega framarlega í réttindamálum og við teljum okkur stundum trú um að við séum. Það er bara þannig. Því miður.

En eina tilgátan sem ég hef heyrt um sem ástæðu fyrir því að valkvæði viðaukinn sé ekki með að þessu sinni er sú að hann feli í sér auknar málsóknir og slíkt. Eins og ég fór yfir í stuttu spjalli við hv. 10. þm. Suðurkjördæmis, Pál Val Björnsson, álít ég það rök fyrir því að gera þetta. Ef þörf er á málsóknum, ef tilefni er til málsókna er mikilvægt að það sé farvegur fyrir þær málsóknir. Ef ekki er þörf fyrir þær koma fordæmi væntanlega hratt, álitamál verða útkljáð og hægt verður að halda áfram, hver svo sem þau eru. Ég sé alla vega ekki fyrir mér að jafn vel stætt ríki og Ísland, sem er í þokkabót lítið samfélag og getur tiltölulega auðveldlega brugðist við ýmsum kröfum um breytingar — það er það reyndar eitt af því jákvæða við það að vera fámenn þjóð með lítið hagkerfi að við getum gert hlutina hratt. Hlutirnir geta gerst mjög hratt á Íslandi og gera það reyndar almennt.

Við eigum ekki að vera hrædd við að taka upp svona viðauka, ekki síst af þeirri ástæðu. Við ættum alveg að ráða við það. Við höfum vissulega efni á því. Ég hef enga trú á því að við höfum ekki efni á því, að fjárskortur geti verið gild ástæða þess að hafna hinum valkvæða viðauka.

Ég velti fyrir mér hvernig fer með atkvæðagreiðslur um þessa breytingartillögu. Ég ætla ekki að leyfa mér að óska hv. þingmanni til hamingju með það fyrir fram að hún verði samþykkt. En ef hún verður ekki samþykkt verður nú heldur betur rætt um það. Það er eins gott að menn hafi gild rök gegn því ef menn ætla ekki að samþykkja viðaukann.

Ein leið til að líta á málið, jafnvel ef það kallar á aukið „vesen“ fyrir yfirvöld eða embættismenn þeirra, er að líta á þetta sem vexti, að líta á þetta þannig að fatlað fólk hafi lánað okkur réttindi sín á meðan við höfum dregið lappirnar með að fullgilda þennan samning. Við köllum það bara bætur eða vexti á því láni að taka þennan valkvæða viðauka með, þ.e. ef við ætlum að líta á það sem eitthvað annað en sjálfsagðan hlut.

Eins og kannski er ljóst greiði ég atkvæði með þessu öllu saman enda er að mínu mati ekki annað forsvaranlegt á þessum tímapunkti og þótt fyrr hefði verið.