145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:37]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Fyrst og síðast vildi ég koma hingað upp til að fagna þeim áfanga sem við erum að ná og þeirri samstöðu sem um málið hefur náðst. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka hv. utanríkismálanefnd og öllum fulltrúum í nefndinni hversu liðlega og vel var tekið á því að afgreiða þetta stóra mál hratt og örugglega út úr nefndinni. Það hefði aldrei verið gert nema vegna þess að fram hafði farið mikil og góð umræða á vettvangi hv. velferðarnefndar áður vegna tillögu sem komið hafði frá nokkrum þingmönnum um mikilvægi þess að klára málið. Það hjálpaði til við að klára málið á eins stuttum og snöggum tíma og raun ber vitni. Fyrst og síðast vil ég færa nefndinni þakkir fyrir það.

Ég vil líka nefna það sem allir aðrir hv. þingmenn hafa gert að þetta er risastórt mál og við erum að ná stórkostlega miklum áfanga. Ég ætla ekki að gera eins og sumir hv. þingmenn hafa gert í dag, að kenna einhverjum um þær tafir sem orðið hafa á málinu eða finna ástæðuna fyrir því að málið hefur hvílt í tæp níu ár án þess að við því hafi verið hreyft. Margir hafa komið að því, en það hafa jafnmargir unnið að því, og vonandi miklu fleiri, að tryggja að við erum nú að ná þeim árangri að fara að fullgilda samninginn.

Það var vel gert hjá hv. þingmanni og framsögumanni hv. utanríkismálanefndar Össuri Skarphéðinssyni í gær að fara yfir nefndarálitið frá hv. utanríkismálanefnd. Ég ætla ekki að gera það, ég veit að þar var vel áréttaður sá skilningur nefndarinnar og okkar allra að það að samþykkja og ganga frá þessu verki núna er ekki bara einhver staðfesting og handaupprétting. Því fylgja miklar skuldbindingar. Við þurfum að vinna með það áfram í formi breytinga á lögum og vinna eftir því kerfi. Við þurfum svo að tryggja að það sé alveg ljóst að okkur er alvara. Þetta er ekki einungis staðfesting og formleg athöfn sem fram fer þegar við fullgildum samninginn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna næstkomandi föstudag, eins og stendur til að gera, heldur fylgja því miklar skuldbindingar fyrir þing og þjóð og ríkisstjórn að gera slíkt. Ég vil árétta að við séum meðvituð um hversu alvarlegt og stórt mál þetta er.

Hér hefur verið talsverð umræða um það sem kallað hefur verið valkvæða bókunin og hefur verið lögð fram breytingartillaga um að við staðfestum hana samhliða þessu. Þær upplýsingar sem hv. utanríkismálanefnd fékk og ég hef einnig fengið frá aðilum sem að þessu koma í umræðunni, förum við ekki í gegnum þá athöfn með samninginn næstkomandi föstudag, það liggur alveg fyrir. Þá þyrftum við að bíða með fullgildinguna vegna þess að ákveðin gögn sem þurfa að fylgja fullgildingunni liggja ekki fyrir varðandi viðbótarbókunina. Ríki hafa farið misjafnar leiðir í því. 166 ríki hafa fullgilt þennan samning, 90 ríki hafa látið þessa bókun fylgja með, önnur hafa beðið með að gera það vegna þess að þau eru ekki tilbúin með gögnin sem þessu tengist.

Nú getum við bent hvert á annað og velt fyrir okkur hvers vegna gögnin og við séum ekki tilbúin. Hv. utanríkismálanefnd lagði alla áherslu á að ljúka þessu, eins og kemur fram í nefndarálitinu þar sem stendur orðrétt, virðulegur forseti:

„Nefndin hvetur stjórnvöld til þess að hafa hraðar hendur svo að fullgildingargögn verði tilbúin innan þess tíma og ljúka megi fullgildingarferlinu með afhendingu þeirra til Sameinuðu þjóðanna.“

Athöfnin á fara fram næstkomandi föstudag. Öll gögn er tengjast fullgildingu samningsins sjálfs liggja fyrir. Gögnin sem tengjast hinni valkvæðu bókun liggja hins vegar ekki fyrir. Það er ástæða þess að við verðum að klára þetta og það er ástæða þess að nefndin segir orðrétt í nefndaráliti sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Standi vilji Alþingis til að fullgilda hana þarf því aðra ákvörðun þar um.“

Ég efast ekki um að hv. utanríkismálanefnd, og hv. þingmenn og þingið allt vilji klára bókunina. Standi vilji manna til að klára það allt saman bendir allt til þess að við þyrftum að bíða eftir gögnum. Það er valmöguleiki að taka þetta saman, en þá verður fullgildingin ekki á næsta föstudag á þeim fundi sem hæstv. utanríkisráðherra situr núna fyrir okkar hönd.

Það er þess vegna sem talin var ástæða fyrir okkur, og við mátum það þannig í nefndinni, að mikils virði væri að koma málinu hingað inn þrátt fyrir að hin valkvæða bókun gæti ekki fylgst með.

Ég vildi útskýra það og árétta. Svo er það í höndum þingsins að taka ákvörðun um hvort menn vilja bíða eða gera þetta með þessum hætti. Til útskýringar vildi ég engu að síður að þetta kæmi fram. Þetta var rætt á fundi nefndarinnar.

Fyrst og síðast, óháð umræðu um valkvæðu bókunina, árétta ég skoðun mína um að að sjálfsögðu eigi Ísland að ganga frá henni líka, hugur okkar stendur til þess. Mér finnst að þingið ætti að klára það hratt og örugglega, en til þess að það gerist verða gögnin að vera til staðar. Ég treysti komandi þingi til að sjá til þess.

Við vitum það öll og einnig þeir sem unnið hafa að þessum málum á þingi lengur en ég, að það er stærsta skrefið að fullgilda samninginn eins og hann liggur fyrir núna. Það er langmikilvægast að gera það. Síðan eigum við að sjálfsögðu að ganga með sama hætti fram gagnvart valkvæðu bókuninni og velta fyrir okkur hvort við viljum lögfesta samninginn.

Stærsta skrefið sem löggjafinn getur tekið núna og er tilbúinn að taka er að fullgilda þennan samning. Hann getur afhent fullgildinguna til Sameinuðu þjóðanna í þessari viku ef okkur tekst að afgreiða málið hratt og örugglega. Ég vona innilega að okkur takist það og að mér hafi tekist að skýra afstöðu mína hvað varðar valkvæðu bókunina því að eftir henni var spurt.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég óska okkur öllum til hamingju með þennan stóra dag og fyrst og síðast þeim sem barist hafa fyrir því máli í mörg ár að þetta yrði að möguleika. Það er að gerast og gerir það á næstu dögum með formlegri staðfestingu ef þingið ákveður að þannig verði það.