145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir prýðilega ræðu og fyrir að fara inn á það mál sem við vorum að ræða áðan, þ.e. um valkvæða viðaukann. Eins og ég sagði áðan á maður ekki fyrir fram að trúa því illa sem sagt er um fólk. Þess vegna þykir mér mjög vænt um að fram komi einhver rök um hvers vegna viðaukinn á ekki að fylgja með í þetta sinn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það.

Að því sögðu velti ég fyrir mér hvort það komi einnig í veg fyrir að Alþingi heimili ríkisstjórninni að undirrita fullgildingu viðaukans. Er ekki hægt að veita heimildina en beita henni seinna, þ.e. eftir að gögnin eru reiðubúin? Til vara spyr ég: Ef þingsályktunin sjálf er þess eðlis að hún felur í sér að gera þurfi hvort tveggja í einu, væri ekki hægt að breyta breytingartillögunni, og það er hægt, í tvær málsgreinar þar sem önnur fjallaði um að fullgilda samninginn og hin fjallaði um að fullgilda einnig valkvæða viðaukann þegar þau gögn liggja fyrir? Ég sé nefnilega ekki hvers vegna það ætti að tefja ferlið. Mér þykja rökin góð, við viljum ekki tefja málið frekar, svo mikið er víst. Ef rökin eru þau að breytingartillaga hv. þm. Páls Vals Björnssonar tefji málið hygg ég að það sé skilningur á því, enda kvarta margir undan því hvað málið hefur tekið langan tíma, burt séð frá því hverjum það er að kenna.

Í stuttu máli, virðulegi forseti. Er ekki hægt að redda þessu og veita þessa heimild til yfirvalda án þess að henni sé beitt akkúrat í dag?