145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:46]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og vangavelturnar. Ég þori ekki alveg að fullyrða um það nákvæmlega hér og nú, en hefði þó talið og segi án allrar ábyrgðar, að þingið gæti haft hér áhrif, annaðhvort í formi þess að árétta það í nefndaráliti með skýrari hætti eða í formi þess að afstaða þingsins kæmi fram sem fæli það í sér að ríkisstjórn Íslands væri falið að klára málið. Það er örugglega hægt að vinna það einhvern veginn þannig enda felur það ekki í sér — og nú er ég að hugsa upphátt og bið hv. þingheim afsökunar á því — að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra þyrfti að mæta á fund með einhver gögn, en það fæli hins vegar í sér vilja þingsins til að klára málið. Þá er það orðið annars eðlis, mundi ég halda, en að senda hæstv. ráðherra til fundar með ókláruð gögn. Mér finnst það vera allt annað mál. Er hægt að breyta tillögunni þannig að hún nái utan um það? Ég ætla ekki að fullyrða um það. Mér finnst það hljóma allt öðruvísi að miða við upplýsingarnar sem við fengum í hv. utanríkismálanefnd. Það er fyrsta hugleiðing mín.