145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hagsmunaaðilarnir, nefnilega fatlað fólk, yrðu mjög glaðir ef við mundum sýna það í verki, að því gefnu að það sé mögulegt, að við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma að hinum valkvæða viðauka ef það tefur ekki málið í heild sinni. Ég held að það sé fullt tilefni til að skoða þann möguleika til hlítar í dag. Ég veit ekki hvort það þarf endilega að greiða atkvæði í dag til að ekki verði töf á föstudaginn, ég þekki það ekki, en hv. þingmaður kinkar kolli. Þingfundur má standa til miðnættis í dag. Ég velti fyrir mér hvort það sé nægilegur tími. Við höfum heilu klukkutímana. Mér finnst þetta ekki það flókið mál.

Spurningin er í raun og veru: Er hægt að veita þessa heimild núna og fullgilda samt samninginn á föstudaginn en bregðast við valkvæða viðaukanum seinna hvað varðar framkvæmd? Það er spurningin sem mér finnst liggja fyrir á þessum klukkutíma og legg til að við finnum svör við því. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður svari því hér og nú enda erum við í umræðunni og þetta er nokkuð sem við verðum að skoða. Ég skil mætavel ef hv. þingmaður getur ekki svarað því hér og nú.

En spurningin er ekki flókin. Alþingi hlýtur að hafa þurft að eiga við svona áður, þ.e. að veita heimild sem ekki er nýtt endilega einhverjum dögum seinna. Ég held að hér sé tækifæri til að sýna í verki að okkur er alvara með að flýta málinu eins mikið og mögulegt er. Ef það tekst ekki finnst mér samt að við eigum að vera algjörlega skýr í afstöðu okkar og leyfa ekki þessum valkvæða viðauka að tefjast meira en algjörlega er nauðsynlegt.

Eins og fyrr greinir sýnist mér samt, mér til ákveðinnar gleði, að verði ekki efnisleg andstaða hér á bæ við þennan valkvæða viðauka og það er mikilvægt að það komi líka fram.