145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson, framsögumaður málsins, út í hina tæknilegu annmarka, ef þeir eru einhverjir, vegna valkvæða viðaukans. Hann spyr um hvort ekki sé hægt að samþykkja tillögu frá hv. þm. Páli Vali Björnssyni, e.t.v. með viðauka sem gæti verið, eins og hv. þingmaður nefnir, áramótin 1. janúar 2017, eða svo fljótt sem auðið er. Ég segi fyrir mitt leyti að ef engir tæknilegir annmarkar eru á því að hafa dagsetninguna með mundi ég frekar vilja hafa það þannig, að Alþingi talaði skýrt til framkvæmdarvaldsins. Við höfum samþykkt að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með hinum valkvæða viðauka. En vegna þess hvernig stendur á, í raun vegna þess hversu seint málið kom inn — en það hefur þó verið unnið faglega, vel og hratt af utanríkismálanefnd, m.a. með því að nýta gögn úr annarri nefnd, sem er til fyrirmyndar á Alþingi — þá setjum við þetta inn. Ef einhverjir tæknilegir örðugleika eru hjá framkvæmdarvaldinu að gera þetta allt saman á næstu einum til tveimur dögum vil ég að það komi skýrt fram hjá Alþingi að við ætlumst til að framkvæmdarvaldið staðfesti valkvæða viðaukann 1. janúar 2017 eða „eins fljótt og auðið verður“. Það er lausnamiðuð leið, það er málamiðlun sem er kannski nauðsynleg vegna tæknilegra annmarka, eins og hv. þingmaður talaði um. Þess vegna segi ég: Jú, við skulum reyna að gera þetta.

Fyrir alla muni, virðulegi forseti, vil ég segja að við látum þennan dag ekki renna án þess að klára þetta mál. Við skuldum fólki það og í raun og veru ættum um leið að biðjast afsökunar á að vera ekki búin að því fyrir lifandi löngu.