145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Nú þegar dregur að lokum þessarar umræðu vil ég sem framsögumaður að áliti utanríkismálanefndar þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég hafði vænst þess að hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sem hefur setið mestan part undir umræðunni mundi líka taka til máls. Kannski er hún á mælendaskrá. Ég er þeirrar skoðunar að við séum að stíga mikið gæfuspor. Ég tel glæsilegt að sjá hversu mikil samstaða virðist ríkja meðal þingheims um að ljúka fullgildingu þessa samnings. Má eiginlega segja að það sé með ólíkindum að tekist hafi að ganga frá málinu á þeim skamma tíma sem var til stefnu. Hæstv. utanríkisráðherra lagði málið fram í síðustu viku. Það var rætt um miðja viku. Á föstudaginn lauk utanríkismálanefnd afgreiðslu málsins.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir þann skilning og lipurð sem hún sýndi áhugamönnum um framgang málsins innan utanríkismálanefndar. Það hefði ekki verið hægt að koma málinu svona hratt til þingsins rétt áður en því á að ljúka nema vegna þessa skilnings. Mikilvægt er að það komi fram.

Sömuleiðis þarf líka að liggja fyrir að það var ekki síst vegna þess að hv. þm. Kristján L. Möller hafði frumkvæði að því að leggja fram ásamt tólf öðrum þingmönnum þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðra. Ég var í hópi þeirra og var mér kærkomið að ljá nafn mitt til stuðnings því máli. Þess vegna er ég hér sem framsögumaður nefndarálitsins. Auðvitað var það skrýtið að hæstv. utanríkisráðherra lagði síðar fram tillögu sem var nákvæmlega stafrétt sama tillagan og við hin lögðum fram áður. Eini munurinn var sá að við höfðum ekki aðgang að þýðingu á samningnum, sem er flókinn og mikill, yfir á íslensku, en það hafði utanríkisráðuneytið vitaskuld. Að því leyti til gekk sú tillaga tæknilega framar. Söm var gjörðin. Ég ætla ekki að fara í neitt skæklatog um það hver á frumkvæðisrétt að málinu. Það sem skiptir mestu máli er að menn eins og hv. þm. Kristján L. Möller og Ásmundur Friðriksson, hvor á sínum væng stjórnmálanna, eru sameinaðir um að styðja þennan samning. Ég tel líka að við séum búin að ræða okkur niður á eins konar samstöðu um að hægt er að ganga líka frá breytingartillögu sem hv. þm. Páll Valur Björnsson lagði fram um valkvæða bókun. Mjög margir eru þeirrar skoðunar að það færi vel á því og væri langbest ef hægt væri að klára líka samþykkt valkvæðu bókunarinnar. Við þingmenn vitum að það eru fjölmargir innan Öryrkjabandalagsins, í forustu þess og meðal ýmissa samtaka fatlaðra, sem eru þess fýsandi. Þess vegna held ég að sú samstaða sem hefur komið fram eigi að nýta til að við klárum það mál líka.

Ég fagna sérstaklega skörungsskap hv. þm. og formanns utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem vatt sér í stólinn áðan og sagði það algjörlega skýrt að hún sæi engin efnisleg andmæli gegn því að samþykkja valkvæði bókunar líka. Hún tiltók hins vegar tiltekna tæknilega örðugleika sem hún hafði fengið upplýsingar um frá embættismönnum í innanríkisráðuneytinu og öðrum ráðuneytum. Ég tek það gilt. Þá segi ég á móti: Við skulum þá koma til móts við bæði sjónarmiðin. Það er hægt, auk þess að samþykkja fullgildingu samningsins sjálfs um réttindi fatlaðra, að samþykkja líka breytingartillögu að jafnhliða verði ríkisstjórninni falið að fullgilda valkvæðu bókunina en skjóta þar dagsetningu inn í framtíðina og orða hana með svofelldum hætti, frú forseti: „eigi síðar en 1. janúar 2017.“ Það þýðir að embættismannakerfið og ráðuneytin hafa tíma frá deginum í dag til að undirbúa innleiðinguna og gera það við fyrsta tækifæri en hafa samt sem áður yfir sér þá svipu að þau verði að gera það eigi síðar en 1. janúar 2017. Þá mundu allir ganga sáttir frá þessu máli og allir hefðu af því mikinn sóma.

Sá samningur sem hér er til umræðu, svo ég víki að honum og læt lokið þeim kafla ræðu minnar sem fjallar um valkvæðu bókunina, felur í sjálfu sér ekki í sér nýmæli hvað réttindi varðar fyrir þá sem búa við fötlun eða einhvers konar þroskahömlun. Flest réttindin sem er að finna í hinum fjölmörgu greinum samningsins er líka að finna í ýmsum öðrum sáttmálum þar sem þau eru sömuleiðis tryggð. Þessum sáttmála er ekki áskilið að skapa ný réttindi. Það sem skilur á milli þessa samnings um réttindi fatlaðra frá Sameinuðu þjóðunum og ýmissa annarra eldri mannréttindasamninga er, eins og ég hef rakið fyrr í dag, að í þeim nýja samningi sem fjöllum um eru réttindin útfærð miklu betur og nánar og þau eru aðlöguð að veruleika fatlaðs fólks í því skyni að veita mönnum virka og raunhæfa réttarvernd.

Ég hef í máli mínu fyrr í dag tekið tvö dæmi um hvað það er sem þessi samningur skýrir betur varðandi t.d. tjáningarfrelsi. Í samningnum er tekið algjörlega skýrt fram að sú vernd tjáningarfrelsis fatlaðs fólks, sem í samningnum felst, þýðir að ríkjum sem samþykkja og fullgilda þennan samning ber skylda til að viðurkenna og stuðla að því að táknmál verði notað og sömuleiðis blindraletur. Sömuleiðis felst í samningnum sú skýring að réttur til menntunar skuli vera án aðgreiningar. Það er eitt af því sem hefur verið gamalt og nýtt baráttumál þeirra sem hafa verið að reyna að tosa fram réttindi fatlaðra Íslendinga.

Sömuleiðis skiptir miklu máli og er kannski aðalatriðið í samningnum sem miðar að því að hafa hliðsjón af því sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði í dag svo fagurlega: Við erum öll alls konar fólk. Ég sagði á móti að finna þurfi pláss fyrir alla. Við erum öll sérstök. Okkar starf sem vinnum að því að bæta réttindi fatlaðra, á mínum vinnustað, vitaskuld býr í brjósti okkar vilji til að veita öllum frelsi til að haga sínu lífi eins og menn vilja án þess að þeir séu hamlaðir vegna þess að þeir bera fötlun. Það þýðir til dæmis að menn eiga að fá að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í sínu samfélagi. Það þýðir að menn eiga að hafa búsetufrelsi, réttinn og aðstoð samfélagsins til að búa með þeim hætti sem þeir vilja og með þeim hætti sem þeir telja sér best henta.

Menn hafa rætt hérna um hina valfrjálsu bókun við samninginn. Það má velta fyrir sér hver þau réttindi eru sem þar koma til viðbótar. Þau eru mikilvæg í augum sumra og kannski mikilvægust í augum einstakra hópa eða einstaklinga. Valfrjálsa bókunin við þennan samning heimilar einstaklingum eða hópi einstaklinga sem telja sig vera þolendur brots á ákvæðum samningsins að taka sitt mál til alþjóðlegrar eftirlitsnefndar, sem á að setja upp um framkvæmd samningsins án tillits til þess hvaða flokki réttindabrotið tilheyrir. Það er ekki annað og meira en það. Íslendingar hafa enga ástæðu til að óttast þetta. Í þessu felst aukin réttindabót og margir telja þetta mikilvægt. Þetta gerir t.d. hinni sjálfstæðu eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna kleift að rannsaka til að mynda kvartanir um það að kerfisbundin brot á réttindum fatlaðra kunni að vera framin á Íslandi. Stjórnvaldið segir í dag að um ekkert slíkt sé að ræða. Hver er þá áhætta þess að heimila og styðja samþykkt valfrjálsu bókunarinnar? Vitaskuld engin.

Frú forseti. Það er auðvitað margt sem á eftir að gera. Þegar sú ríkisstjórn sem ég sat í setti af stað vinnu til að undirbúa samþykkt þessa samnings var það partur af sérstakri framkvæmdaáætlun sem var samþykkt árið 2012 í málefnum fatlaðra. Þá var skrifræðisberserkjum kerfisins falið m.a. það verkefni að undirbúa fullgildingu þessa samnings eigi síðar en 2014. Það hefur dregist úr hömlu, hugsanlega vegna þess að menn lögðu sig í líma við að saumfæra íslenskan rétt. Farið var yfir öll lög í íslenskum rétti til að komast að því með hvaða hætti þyrfti að bæta íslensk lög þannig að þau samrýmdust og stæðust gagnvart ákvæðum samningsins um réttindi fatlaðra. Í mörgum efnum er búið að gera bragarbót þar á, búið er að breyta nokkrum lögum, t.d. kosningalögum. Gerðar voru breytingar til að mæta ákvæðum 29. gr. samningsins, á kosningalögum árið 2012. Það voru sömuleiðis gerðar breytingar á íslenskri löggjöf árinu á undan, árið 2011, þegar Alþingi samþykkti lög um réttindagæslu fatlaðs fólks. Það eru margar breytingar sem nú þegar hafa leitt af viðleitni okkar og ákvörðun um að vinna að því að fullgilda samninginn. En betur má ef duga skal. Komið hefur fram í þessari umræðu að það eru fjölmörg lög sem enn þarf að lagfæra.

Eins og hv. þm. Kristján L. Möller sagði og ég veit að hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, er okkur báðum sammála um að það er ekki vansalaust að enn skuli ekki hafa komið fram frumvarp til laga um bann við mismunun. Slík lög hafa gilt í 16 ár innan Evrópusambandsins, þess sambands sem sumir vilja alls ekki ganga í. Að minnsta kosti þeir sem vilja lifa í umhverfi þar sem hvers konar mismunun er bönnuð, þeim mundi líða vel innan þess góða sambands. Ég ætla ekki að blanda þeirri umræðu í þetta. Við þurfum sem sagt að sjá hér frumvarp um bann við mismunun.

Sömuleiðis liggur það líka fyrir að til að svara mörgum greinum samningsins um réttindi fatlaðra þarf að koma fram frumvarp um þjónustu við fatlað fólk og sömuleiðis frumvarp sem breytir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þegar þessi frumvörp hafa komið fram er auðvitað langt komið.

Ég get ekki lokið þessari ræðu, frú forseti, án þess að minnast á tilraunaverkefni um NPA, þ.e. bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var við lögin 1992, átti að vera lokið fyrir árslok 2014. Á þeim tíma síðan 2014 og til dags dato átti ráðherra að leggja fram frumvarp til laga þar sem yrði lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð yrði lögfest sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Það gerðist í árslok 2014 og síðan aftur 2015 að því verkefni var frestað með tilheyrandi óvissu og erfiðu ástandi fyrir alla þá sem undir það falla. Ef hæstv. ráðherra, Eygló Harðardóttir, er hér einhvers staðar nærstödd eins og hún á auðvitað að vera, þá spyr ég hana: Hvenær ætlar ráðherra sér að leggja fram það frumvarp? Nú eru að koma þinglok og það bólar ekkert á því.

Í mínu sveitarfélagi, Reykjavík, eru 13 einstaklingar sem eru með samning um notendastýrða persónulega þjónustu. Það er fólk sem er með samning út árið 2016. Sama gildir um fólk í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Vestmannaeyjum. Það er algjör óvissa uppi um framhald þessa verkefnis. Það er mjög brýnt að fá svör frá hæstv. ráðherra og ég vil fá þau svör í þessari umræðu um hvernig hæstv. ráðherra ætlar að svara stöðu þessa hóps. Þetta er fólk sem er með starfsfólk með uppsagnarfrest og þyrfti helst að vita eigi síðar en um næstu mánaðamót ef á að segja upp þeim starfsmönnum með þriggja mánaða fyrirvara. Ráðherra þarf að skýra þetta mál um leið og hún kemur hingað, væntanlega til að berja sér á brjóst fyrir að sitja í ríkisstjórn sem er að leggja fram tillögu um fullgildingu á samningi um réttindi fatlaðra. Hvað með réttindi þeirra sem njóta NPA?

Frú forseti. Margt annað gæti ég sagt. En að lokum vil ég segja að þetta er hátíðisdagur, gleðidagur, og gleðiefni að hann skuli bera upp á sama dag (Forseti hringir.) og félagið Átak, félag fólks með þroskahamlanir, var stofnað árið (Forseti hringir.) 1993. Það er sannarlega við hæfi að Átak og fullgilding þessa samnings muni í framtíðinni bera sama afmælisdag.