145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég mun ekki hafa hér langt mál enda er áhugi hjá okkur öllum á að ljúka umfjöllun um þessa tillögu þannig að senda megi fullgildingarskjölin vestur um haf í tæka tíð þannig að Ísland, þótt seint sé, verði í hópnum sem þá bætist við sem fullgildur aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að standa í þeim sporum í vissu um að skjölin eru á leið vestur um haf og að við loksins hysjum upp um okkur buxurnar í þessum málum, en það er um leið dapurlegt að vera í þessum sporum að áliðnum septembermánuði 2016, að enn hafi Ísland ekki fullgilt samninginn í ljósi þess að Alþingi tók þá ákvörðun í júnímánuði 2012 að það skyldi gera og batt við það vonir að u.þ.b. eitt eða eitt og hálft ár mundi duga. Þá var í áætlunum um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra lagt upp með að á árinu 2013 yrði unnt að ljúka þessu verki. Það hefur reynst tafsamara en þetta. Mér finnst ágætt að menn horfist stundum í augu við sjálfa sig. Þess vegna fagna ég því að utanríkismálanefnd tekur í nefndaráliti sínu undir þá einkunn velferðarnefndar að í þessum efnum hafi stjórnvöld ekki staðið sig sem skyldi. Við erum einfaldlega ekki að kveinka okkur undan því og viðurkennum fúslega að hér hafa málin ekki verið unnin með sómasamlegum hætti.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu betra seint en aldrei og má segja að það sé komið alveg fram á síðustu stundu og auðvitað langt fram yfir hana. Þetta er ekki boðlegt fyrir þróað ríki eins og Ísland sem ekki á að vera í þeim óskaplegu vandræðum hvað varðar t.d. lagalega úrvinnslu mála af þessu tagi, að breyta þeim lagaákvæðum sem til þarf, og ekki skortir okkur heldur efnin til þess sem ein af ríkari þjóðum heimsins að leggja það í þennan málaflokk sem til þarf.

Eins og áður segir var stefnan auðvitað mótuð í sjálfu sér strax með undirskrift samningsins á sínum tíma. Við skulum ætla að menn geri slíkt ekki nema með það að markmiði að fullgilda síðan gjörninginn og það er strax, eins og kunnugt er, 30. mars 2007 þannig að auðvitað er alveg dæmalaust að komin séu hátt í tíu ár. Það er þó að sjálfsögðu mál til komið að ljúka þessu.

Ég vil í þriðja lagi segja varðandi valfrjálsa viðaukann að í nefndaráliti utanríkismálanefndar kemur fram að þar hafi ráðuneytið fullvissað nefndina um eða það hafi komið fram fyrir nefndinni að ekki stæði til að fullgildingin næði nema til samningsins sjálfs. Þetta er svolítið annað en í raun og veru var rætt í velferðarnefnd þar sem við tókum þetta mál fyrir. Þá mátti alveg eins skilja á fulltrúum ráðuneyta sem komu fyrir nefndina að í raun og veru væri mögulegt að fullgilda hvort tveggja. Nú er upplýst að það sé ekki hægt, þ.e. náist ekki á morgun eða fyrir tilskilinn tíma, vegna þess að fullgildingarskjölin hafi verið útbúin miðað við samninginn einan, ekki valkvæðu bókunina, en það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að Alþingi taki prinsippafstöðu til þess máls. Ég tel einboðið að gera það. Mér er kunnugt um að í vinnslu er breytingartillaga sem mundi af hálfu Alþingis klára málið, að Alþingi gæfi framkvæmdarvaldinu ekki bara heimild til að skila inn fullgildingarskjölunum heldur gjarnan skipaði framkvæmdavaldinu fyrir verkum um að það skyldi gert fyrir einhver tiltekin tímamörk. Þá þarf ekki að fara með málið hingað fyrir Alþingi aftur, þegar sú prinsippákvörðun hefur verið tekin. Það er afar einfalt að bæta því við með viðeigandi texta og verður vonandi gert áður en við göngum til atkvæða um málið.

Í fjórða lagi vil ég nefna að ég hef algjörlega sannfærst um það eftir skoðun á þessu máli í vetur í velferðarnefnd að við eigum að lögfesta samninginn, síðan eigum við eins fljótt og mögulega er gerlegt að gefa öllum samningnum lagastoð, taka hann upp í lagasafnið sem lög. Á því er munur og að fullgilda á grundvelli þingsályktunartillögu og gera svo tilteknar ráðstafanir í sérlögum hér og þar. Það er hafið yfir allan vafa í mínum huga að staða samningsins verður sterkust með því að hann sé lagatexti. Þetta hafa nægjanlega margir málsmetandi lögfræðingar sem ég tek mark á sannfært mig um enda ekki langt að sækja fordæmin því að einhverjir tveir mikilvægustu samningar sem eru á þessu sviði eða segja má að séu skyldir, mannréttindasáttmáli Evrópu og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, eru báðir lög á Íslandi. Þeir voru sem sagt ekki bara fullgiltir af Íslands hálfu heldur var þeim líka gefin sú stoð að þeir væru lög í landinu. Hver ein og einasta grein þeirra er lög og menn geta leitað réttar síns á grundvelli þeirra.

Þetta er mín afstaða, að þessu verki verði ekki lokið fyrr en við höfum ekki einasta fullgilt bæði samninginn og valfrjálsu bókunina heldur líka lögtekið a.m.k. samninginn sjálfan. Ég veit svo sem ekki hvort menn hafa gengið svo langt að lögtaka viðauka eða bókanir, ég efast um það, ég hygg að það sé t.d. bara mannréttindasáttmálinn sjálfur sem er lög á Íslandi. Að mínu mati er fullgildingin jafn sjálfsögð og lögfestingin sem vonandi kemur í framhaldinu og þótt hún komi til er ekki þar með sagt að allt sé tryggt í þeim efnum, að fatlað fólk muni sjálfkrafa njóta allra þeirra réttinda sem samningnum er ætlað að færa því. Það er bara ekki þannig. Ég held að við eigum að vera okkur mjög meðvituð um það, um leið og við fögnum þessu sem löngu tímabærum áfanga, að þar með er ekki allt í höfn. Það þarf vilja til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að markmið samningsins og tilgangur náist og til þess að fatlað fólk njóti réttinda hans að öllu leyti eins og hægt er. Það þarf mikinn metnað til þess, fjármuni, að sumu leyti kannski hugarfarsbreytingu, meðvitund um málaflokkinn og mikinn skilning á því. Að einhverju leyti snýst þetta kannski um uppfræðslu og hugarfarsbreytingu í landinu líka, auðvitað alveg sérstaklega í stjórnsýslunni og annars staðar sem þessi réttindi koma við sögu, í framkvæmd, fjárlögum o.s.frv.

Auðvitað er engu að síður áfangi að fullgilda og síðan lögtaka samninginn. Hann skapar þar með grundvöll og tryggingu fyrir því að menn geti sótt réttindin ef stendur upp á stjórnvöld að standa sig í stykkinu. Þess vegna held ég að lögfestingin sé ákaflega mikilvæg því að það er enginn vafi á því að það er sterkara að fara með ágreiningsmál sem kynnu að rísa um það hvort stjórnvöld hafa gert það sem til þarf og nauðsynlegt er og hægt er að ætlast til af þeim. Þá er betra að það sé sótt á grundvelli laga en ekki bara fullgildingar.

Draumsýn mín er að t.d. á næsta ári verði valfrjálsa bókunin fullgilt af Íslands hálfu og að innan skamms tíma í framhaldi af því verði samningurinn lögfestur. Ég er svo bjartsýnn að trúa á að ég muni upplifa þá stund á Alþingi.