145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:40]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en á þessari gleðistundu þegar við erum að ljúka þessari umræðu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mér ofarlega í huga þakklæti til þeirra sem hafa komið að þessu máli á undanförnum missirum og árum. Þetta er mikil réttarbót fyrir þá einstaklinga sem eiga þarna í hlut. Markmið samningsins er, eins og fram kemur í 1. gr. hans, að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Þetta eru göfug og falleg orð.

Núna eftir örskotsstund ætlum við að samþykkja þennan samning og auk þess mun liggja fyrir breytingartillaga um valkvæða viðaukann sem er mikilvægt að ríkisstjórnin komi til framkvæmda þegar á næsta ári. Nú liggja fyrir drög að samkomulagi um þá meðferð. Ég er ánægður að þingið sýni þennan vilja í verki að klára þessi mál í dag og vil bara óska okkur til hamingju þegar atkvæðagreiðslunni er lokið. Takk fyrir.