145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil þakka utanríkismálanefnd fyrir hversu hratt og vel hún hefur unnið þetta mál og vil einnig þakka velferðarnefnd fyrir hennar framlag við vinnslu málsins.

Hér hefur margítrekað komið fram í dag hversu mikilvægt það er að við séum að sameinast í að samþykkja fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég held að við séum öll sammála um að við hefðum gjarnan viljað standa hér fyrr, getað klárað samninginn fyrr. En ég held það hafi líka komið mjög skýrt fram í umræðunni að þetta er ákveðið upphaf, við munum halda áfram við að vinna að fullgildingunni, að innleiða í lög það sem samningurinn felur í sér. Þar eru nokkur mál sem heyra undir mig sem ég tel einmitt mjög brýnt að komi inn í þingið, það eru breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem eru mjög mikilvægar, og líka lög um málefni fatlaðs fólks sem hefur verið unnið að í töluverðan tíma. Það er líka einkar jákvætt að hafa fundið hér hvernig þingið hefur leitað leiða til að gera þessa tillögu enn betri með því að huga að viðauka sem var við samninginn og koma því skýrt á framfæri að það er vilji þingsins að sjá þann viðauka innleiddan hér á Íslandi líka.

Í umræðunni var nokkrum spurningum beint til mín. Ég vildi fá að leggja sérstaka áherslu á það hér að ég tel mjög mikilvægt að innleitt verði í lög bann við mismunun á vinnumarkaðnum og líka ákveðin mismununarákvæði sem snúa að öðrum mismununarþáttum. Það er oft þannig að maður vill gjarnan gera miklu meira en maður getur kannski gert á hverjum tíma. Áherslur mínar, þegar hefur komið að málefnum fatlaðs fólks, hafa verið að fylgja eftir vilja þingsins, að tryggja að við höfum fjármagn í þau verkefni sem þingið hefur falið okkur í gegnum framkvæmdaáætlun sem var samþykkt í tengslum við það að við fórum að vinna að þessari fullgildingu. Sett var mjög metnaðarfull framkvæmdaáætlun en meðal annars vegna erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálunum var fjármagn ekki tryggt.

Ég hef jafnframt lagt mjög mikla áherslu á það að ljúka yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna og vinna með sveitarfélögunum að því að þróa og efla þá þjónustu sem fatlað fólk á rétt á til að geta lifað sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar. Einnig kom fram í umræðunni, sem sneri að framfærslu fatlaðs fólks, að ég hef lagt mjög mikla áherslu á að horfa á þá þætti sem hefur sýnt sig aftur og aftur í rannsóknum að skipta hvað mestu máli þegar kemur að fátækt fólks, þ.e. skortur á húsnæði, húsnæðiskostnaður og heilbrigðiskostnaður.

Við höfum náð miklum árangri með góðri samstöðu hér í þinginu, með nýju félagslegu húsnæðiskerfi, greiðsluþátttökukerfi og með því að tryggja aukna fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Ég skal hins vegar viðurkenna að það urðu mér vonbrigði að ekki skyldi nást samstaða, í nefnd um breytingar á almannatryggingunum, um breytingar á bótakerfi öryrkja og þar af leiðandi einnig fatlaðs fólks. Það hefur tafið alla vinnu og ég hef ekki getað komið inn með sambærilegar breytingar og lagt er til varðandi lífeyri aldraðra.

Ég hef oft hugsað til fyrstu ræðu forseta Íslands hér í þinginu, þegar hann talaði um mikilvægi málamiðlana, um að þær skipta líka máli; að við tökum höndum saman, stígum skref fram á við og stefnum í rétta átt. Falleg orð skipta máli, en við verðum líka að tryggja að við framfylgjum þeim, að við tryggjum fjármagn og vinnum áfram að hlutunum eitt skref í einu. (Gripið fram í.) Hér erum við að stíga gott skref, mikilvægt skref, en við munum halda áfram að stíga fleiri skref og vinna að réttindum fatlaðs fólks því að það er gífurlega mikilvægt.

Enn á ný ítreka ég þakkir mínar til þingsins og það er að lokum ánægjulegt að fá að vera hér sem starfandi utanríkisráðherra. Ég þakka þá um leið hæstv. ráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur fyrir að hafa lagt þetta mál fram í þinginu.