145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fer hæstv. ráðherra vel að vera í gervi utanríkisráðherra eins og reyndar mörgum öðrum. Ég varpaði til hæstv. ráðherra spurningu í dag sem varðaði notendastýrða persónulega aðstoð. Ég spurði hana út í stöðu þess verkefnis og benti henni á að á sama tíma og við erum að samþykkja að fela ríkisstjórninni að fullgilda samninginn um réttindi fatlaðra er hópur fólks hér í Reykjavík og í mörgum byggðarlögum með allt sitt líf í uppnámi. Þetta er fólk sem býr við fatlanir og hefur haft samning um NPA. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum átti hæstv. ráðherra að leggja fram, fyrir lok síðasta árs og fyrir lok þessa árs líka, frumvarp um hvernig eigi að haga því í framtíðinni. Þetta er fólk sem hefur samninga sem renna út núna um áramótin. Hver er staða þess fólks? Það er í fullkomnu uppnámi.

Ég hef beðið eftir því að fá tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta. Hér gefst tækifærið. Undir umræðunni í dag þá varpa ég þessum spurningum til hennar. Ég tel afar brýnt fyrir þetta fólk að fá að vita hver framtíð þess er. Það lifir við mikla óvissu og það er hagsmunamál fyrir afar marga að fá úr því skorið hvað verður um samningana sem þetta fólk hefur og sömuleiðis um hvaða áform menn hafa um að lögleiða NPA. Það er kannski full seint í rassinn gripið að spyrja um það núna á þessum degi þegar formlega er boðað til kosninga. Mig langar samt sem áður til að spyrja hæstv. ráðherra í fullri vinsemd: Hvernig á að leysa mál þessa fólks?