145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki dreg ég í efa góðan vilja ráðherrans, en góður vilji er léttur í vasa alveg eins og orð. Þarna er kannski ekki um stóran hóp einstaklinga að ræða, en allmarga sem eiga allt sitt undir þessu. Hæstv. ráðherra var falið, með lögum ef ég man rétt, með sérstöku bráðabirgðaákvæði í lögum, að leggja fram frumvarp um þetta. Það tókst ekki fyrir 2014, eins og mig minnir að standi í lögunum. Hún átti að gera það fyrir 2015, það tókst ekki heldur. Nú erum við að koma í kosningar og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra ætli að ganga úr stóli félagsmálaráðherra án þess a.m.k. að tryggja það hver verður framtíð þeirra sem búa við þessa samninga.

Hæstv. ráðherra hefur skilmerkilega og ærlega sagt frá stöðu málsins og sagt þinginu frá því, að því er mér skildist, að ágreiningur innan nefndarinnar sem vélaði um þetta frumvarp valdi því að ekki er hægt að koma því fram, ágreiningur sömuleiðis um fjárskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég spyr hana núna þegar mánuður er til kosninga og það blasir við að það gæti tekið langan tíma að mynda ríkisstjórn: Hvernig ætlar hún að skiljast við þessa einstaklinga? Það væri góður bragur á því, í lok þessarar umræðu, að hún legði fram nokkuð skýra sýn um það hvernig hún ætlar að sjá til þess að framtíð þeirra verði ekki í fullkominni óvissu.