145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi tekið eftir því að ég er vön að berjast fyrir mínum málaflokkum. Það er hins vegar þannig að til þess að reyna að ná niðurstöðu skiptir máli að hlusta á ólík sjónarmið og ná málamiðlun eins og ég fór yfir í ræðu minni. Ég hef heyrt það mjög skýrt frá fötluðu fólki að mikilvægt sé að þetta úrræði verði lögfest. Menn lögðu líka áherslu á að það yrði að fá niðurstöðu í tilraunaverkefnið. Við tryggðum fjármagn til tilraunaverkefnisins og því er að ljúka.

Ég legg líka mjög mikla áherslu á, og það þarf að endurspeglast í þeim frumvörpum sem munu koma hér inn í þingið, sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk. Það er það sem ég heyri að verið er að kalla eftir. Það er ekki þannig að menn sjái fyrst og fremst fyrir sér kostina við það að vera atvinnurekendur eða að borga starfsfólki laun, heldur að fólk geti valið þá þjónustu á þeim tíma þegar því hentar til að lifa sjálfstæðu og frjálsu lífi. Það er það sem þarf að endurspeglast í þeim frumvörpum sem koma hér til þingsins. Það er það sem nefndin hefur verið að vinna að. Ég vona svo sannarlega að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram þannig að við getum haldið áfram að bæta líf fatlaðs fólks hér á Íslandi.