145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að draga til baka breytingartillögu mína við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á þskj. 1676, en jafnframt að mæla fyrir annarri breytingartillögu á þskj. 1688. Hún heitir: Breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Flutningsmenn ásamt mér, Páli Val Björnssyni, eru hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Breytingartillagan hljóðar þannig:

„Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.“

Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.

Á dauða mínum átti ég von frekar en að sú tillaga sem ég lagði hér fram hefði þessi áhrif. En það er gott að þetta hristi hressilega upp í umræðunni um réttindi fatlaðs fólks. Það sýndi kannski að við stöndum okkur ekki nógu vel og höfum ekki staðið okkur nógu vel í því að verja réttindi fatlaðs fólks. Ég lagði þessa tillögu fram í góðri trú um að hægt væri að samþykkja valkvæðu bókunina með, ég hélt hreinlega að það væri þannig. Ég dreg þá tillögu til baka vegna þess að ég fékk staðfestingu á því frá ráðuneytisfólki, frá hæstv. félagsmálaráðherra, hv. formanni utanríkismálanefndar o.fl., að þessi vinna væri ekki til staðar, að það ætti eftir að vinna alla vinnu hvað varðar þessa valkvæðu bókun. Það er alveg hreint ótrúlegt að í níu ár skuli ekki vera búið að vinna neitt hvað þetta varðar. Það undirstrikar það sem ég sagði áðan að við stöndum okkur ekki nógu vel í þessum málaflokki. Það er bara þannig.

Á Alþingi vinnur gott fólk. Við komumst hér að þeirri niðurstöðu áðan í þverpólitískri sátt að leggja þessa breytingartillögu fram. Það eiga allir hrós skilið fyrir það, enda eigum við ekki að rífast um eignarhald á tillögum hvað varðar réttindi fólks í landinu. Þar eigum við að standa saman öll sem eitt. Fatlað fólk er íbúar þessa lands eins og við og á að njóta nákvæmlega sömu réttinda og við. Þessi valkvæða bókun tryggir réttarstöðu fatlaðra fullkomlega og gerir það þannig að þau eru algjörlega jafnsett öðrum í samfélaginu. Um það eigum við ekkert að rífast. Við eigum að sjá sóma okkar í að klára það.

Við erum að fara að fullgilda samninginn á eftir sem er frábært skref og því fagna allir í samfélaginu. Þetta er áfangasigur. Við unnum annan áfangasigur með því að þetta mál verður staðfest á næsta ári og fullgilt. Síðan hættum við ekki fyrr en búið er að lögfesta það. Við eigum að undirgangast það hér — við verðum kannski fá hér þegar líður á haustið, en þeir sem koma til þings í haust — að stefna að því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá getum við haldið hátíð. Þetta eru góðir sigrar sem við unnum í dag, áfangasigrar, og við skulum öll gleðjast yfir því.