145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[18:01]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu sem ég flutti fyrr í dag um mikilvægi þessarar staðfestingar og fullgildingar sem ég vona að við klárum hér á eftir. Það er stórt og mikilvægt skref og allir eiga þakkir skilið sem í þessum sal sitja og miklu víðar fyrir þann stóra áfanga.

Aðeins vegna breytingartillögunnar sem hér hefur verið kynnt þá held ég að í því felist líka annar sigur. Það er mjög ánægjulegt að vera á vinnustað sem stundum hugsar einungis í lausnum og það gerðist hér á síðustu klukkustund þegar þingmenn sáu að fær leið var til lausna. Ég vil líka nota tækifærið og þakka embættismönnum sem komu hér í löngum bunum til að hjálpa okkur til að tryggja að þetta gæti orðið að veruleika með þessum hætti. Nú hefur þingið og allir hv. þingmenn, ef þetta verður samþykkt, sagt hátt og skýrt að við teljum mikilvægt að þessi samningur verði fullgiltur en að menn muni líka tryggja að valkvæða bókunin og viðaukinn liggi fyrir eigi síðar en fyrir árslok 2017. Það er alveg skýrt hér og leggur góðar línur fyrir framhaldið.

Ég var stolt af að vera þingmaður þegar við leystum þetta svona. Innilegar þakkir fyrir það. Ég held að menn geti verið bjartsýnir og væri farsælla ef við mundum klappa hvert öðru á bakið í dag í staðinn fyrir að vera í baksýnisspeglinum og meta hver á hvað í þessu máli. Til lukku með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)