145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[18:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál lætur kannski lítið yfir sér, það er verið að færa ákvörðun um gjafsókn til sýslumanns, en hins vegar eru stór atriði undirliggjandi, í rauninni er það kannski það sem er ekki í frumvarpinu sem vekur spurningar. Það er ekki verið að hækka fjárhagsleg viðmið fyrir gjafsókn sem gerir að verkum að þau viðmið eru bara allt of lág þannig að ég veit í raun ekki hver fær gjafsókn á fjárhagslegum grundvelli. Þarna vakna alls konar spurningar um það yfir höfuð hvaða einstaklingar í landinu hafa efni á því að leita réttar síns fyrir dómstólum. Þetta mál ætti að vera okkur tilefni til þess, þ.e. þeim sem sitja hér í framtíðinni, að fara ofan í saumana á því hvort almennt jafnræði ríki gagnvart lögum í þessu landi, hvort fólk hafi efni á því að sækja t.d. rétt sinn gagnvart sterkum stofnunum og fyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Það er (Forseti hringir.) það sem Landvernd er að benda á, að við setjum ekki inn í þetta ákvæði um uppfyllingu Árósasamningsins um að lögaðilar geti leitað réttar síns með gjafsókn í umhverfismálum. (Forseti hringir.) Þess vegna sitjum við hjá núna og vonum að þessu verði breytt á milli umræðna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)