145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[18:17]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka þinginu og allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir vinnslu þessa máls og að það sé komið til afgreiðslu. Þetta er mjög mikilvægt, hér erum við að ramma af þau lykilverkefni sem snúa að málum innflytjenda og flóttamanna. Hér er ný stoð sem snýr sérstaklega að flóttamönnum sem er verkefni sem er tiltölulega nýtt í okkar samfélagi og skiptir mjög miklu máli að við sinnum vel.

Í nýlegum tölum sem ég lagði fyrir ríkisstjórn í morgun má sjá að það er mikil fjölgun fólks af erlendum uppruna sem flytur hingað, sem er að koma inn á vinnumarkaðinn, vinnumarkaðurinn kallar eftir því. Við þurfum að sinna því og tryggja að þeir sem velja að búa hér geti gert það, aðlagast samfélaginu og orðið hluti af því með sem bestum hætti.

Ég vil að lokum nefna það sem mér þótti sérstaklega skemmtilegt að fá upplýsingar um núna í dag að af þeim flóttamönnum sem höfðu leitað til Vinnumálastofnunar (Forseti hringir.) um aðstoð við að fá vinnu voru 65% af þeim komnir innan árs í fullt starf. Við sjáum að það fólk sem kemur hingað ætlar svo sannarlega að taka virkan þátt í samfélaginu (Forseti hringir.) og þessi framkvæmdaáætlun er einmitt hugsuð til þess að taka utan um það og styðja við það fólk.