145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[18:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við sem samfélag setjum okkur framkvæmdaáætlun þegar kemur að málefnum innflytjenda og þess vegna fagnaði ég þessari þingsályktunartillögu þegar hún var rædd fyrr í vetur. Þá gerði ég reyndar athugasemdir við orðalag sem ég beindi til nefndarinnar að skoða sérstaklega sem varðaði lið B.7, þar sem fjallað er um hvernig efla megi stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem hafa búið við heimilisofbeldi. Ég taldi að orðalagið mætti misskiljast og konurnar sjálfar væru í raun gerðar ábyrgar fyrir ofbeldinu. Nefndin tók þetta til greina og lagði til breytingartillögu sem ég fagna mjög sem og öðrum breytingartillögum sem nefndin hefur unnið. Nefndin hefur að mínu mati unnið mjög gott starf og ég fagna því (Forseti hringir.) því að mikilvægt er að svona framkvæmdaáætlun sé vel úr garði gerð. Ég vil að lokum segja að við þurfum í framtíðinni að setja enn meiri peninga í þennan málaflokk. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt að vel sé um þessi mál búið í okkar samfélagi því að það er svo sannarlega samfélaginu öllu til heilla.