145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal síðastur manna fara að segja þinginu fyrir verkum, en ég tel að málið hafi fengið mjög góðan undirbúning, hafi verið vel kynnt og að þeir sem hagsmuni hafa af því að fylgjast með þessum breytingum séu vel í stakk búnir til að gera grein fyrir málinu.

Varðandi einstaka hópa sem hér eru nefndir, aðstoðarmenn ráðherra — nei, það er ekki markmiðið að bæta kjör þeirra sérstaklega eða yfir höfuð kjör skrifstofustjóranna. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega mín skoðun að það sé engin ástæða til þess að taka skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu út og segja: Kjör þessa hóps geta ekki ráðist nema með ákvörðun kjararáðs. Hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna í ósköpunum að taka þennan grundvallarrétt að fá að semja um kaup sitt og kjör af þessum hópi? Ég held að menn hafi á einhverjum tímapunkti gengið of langt í þessu. Í raun og veru vil ég segja það sama um sendiherrana. Ég heyri að ráðherrann fyrrverandi hefur áhyggjur af því sem fyrrverandi utanríkisráðherra að sendiherrar gætu mögulega farið í verkfall, en erum við þá ekki að færa rétt til sendiherranna? Það kann vel að vera að það verði á einhvern hátt einhverjum vandkvæðum bundið eða flókið að koma saman einhvers konar stéttarfélagi, fyrirkomulagi, forsvari fyrir gerð kjarasamninga fyrir þann hóp. Og sama gildir fyrir skrifstofustjórana sem mundu þurfa að ákvarða hvar þeir ætluðu að koma sér fyrir til að eiga þær viðræður. Ég held að það sé vel leysanlegt eins og fyrir alla aðra starfsmenn ríkisins. Við erum t.d. með það fyrirkomulag að læknar geta farið í verkfall og það gerðu þeir í fyrra og voru að fara að loka hér skurðstofum. (Gripið fram í.) Alvarlegt mál. Með sömu rökum ættum við að fara að þrengja verkfallsrétt margra hópa í samfélaginu sem gegna mikilvægum störfum, en ég er ekki að leggja það til.