145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar a.m.k. ekki til þess að verða utanríkisráðherra aftur og stýra utanríkisþjónustu með sendiherrana í verkfalli í miðri milliríkjadeilu, bara svo ég dragi athygli að því. Ég ætla ekki að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um aðstoðarmenn ráðherra. Mér fannst sérkennilegt að hann nefndi þá sérstaklega með þeim umbúnaði að það er alveg ljóst að stefnt er að því að þeir verði launahærri en ráðherrann sjálfur.

Mig langar til að spyrja um fjórðu starfsstéttina, það eru starfsmenn Alþingis. Hvernig er farið með þá í þessu? Njóta þeir kannski einhverra sérkjara og þeir eiga að vera undir kjararáði af því að þeir eru svo mikilvægir, er það ekki? Bara af því að hæstv. ráðherra nefndi það ekki. Ef ég man rétt eru nú einhverjir þeirra undir kjararáði.

Síðan fundust mér vangaveltur hæstv. ráðherra um kjararáð vera mjög merkilegar en ég ætla ekki að spilla kvöldi hans með því að fara í langar ræður hér á eftir. En ég er þeirrar skoðunar, ég þekki lögin kannski ekki nógu vel, en ég taldi að kjararáð ætti að taka mið af samningum, ekki endilega stöðu hópa. Eftir að launalækkun var gerð hér með lögum taldi ég að það væri hlutfallið (Forseti hringir.) á milli niðurstaðna samninga og þeirrar stöðu sem mundi ráða því hver (Forseti hringir.) yrði niðurstaðan, en ekki endilega eins og hæstv. ráðherra talar um, að vera eigi eitthvert tiltekið bil á millum hópa. Það finnst mér ekki (Forseti hringir.) vera hlutverk kjararáðs, hafi ég skilið ráðherra rétt.