145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Nú er það svo að ég hef ekki haft neina aðkomu að ákvörðun kjara aðstoðarmanna á þessu kjörtímabili og skal góðfúslega viðurkenna það að ég veit ekki nákvæmlega hver þau kjör eru, hef svona grófa hugmynd um það. Það mun vera svo samkvæmt mínu minni að laun aðstoðarmanna séu mjög nálægt kjörum skrifstofustjóra eins og þau eru í dag. Ástæðan fyrir því að ég tók þetta sérstaklega fram í ræðu minni er sú að ef laun aðstoðarmanna eru sambærileg við laun skrifstofustjóra eins og þau eru ákvörðuð af kjararáði í dag þá skiptir máli að svara því hvernig þau verða ákvörðuð ef laun skrifstofustjóra eiga ekki að ráðast af niðurstöðu kjararáðs eftir breytinguna. Þetta er eiginlega afleiðing af því að kjör skrifstofustjóra verði í framtíðinni ákvörðuð með öðrum hætti.

Ég hef sömuleiðis ekki kynnt mér það sérstaklega hvernig laun ráðherra standa gagnvart skrifstofustjórum. En ég hef tekið eftir því að laun alþingismanna og þar með talið hluti kjara ráðherra hafa setið eftir á undanförnum árum. Ég mundi ætla að laun alþingismanna og ráðherra hafi setið hvað mest eftir af launum allra opinberra starfsmanna frá árinu 2009 að teknu tilliti til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar annars vegar með kjarasamningum og hins vegar uppsafnað, með öllum hækkunum kjararáðs.