145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nálgast þetta mál aðeins meira frá sjónarhorni notenda en EES-reglugerðum og þessu annars áhugaverða dómafordæmi. En eins og hæstv. ráðherra veit, og ég og fleiri sem kynna sér þetta mál, er alveg gríðarlegur misskilningur á því hvað þetta þýðir. Ég er búinn að lesa nokkrum sinnum á Facebook í dag að fólk bölsótast út af þessu máli og virðist það vera byggt á misskilningi sem ég fer yfir rétt á eftir. En burt séð frá því held ég að ég hafi fundið út úr því hvaðan misskilningurinn kemur. Hann kemur vegna þess að fyrir flestu fólki, fyrir notendum er rökrétt afstaða stjórnvalda að bæta höfundum og rétthöfum skaðann af svokallaðri ólöglegri fjölföldun. Fólk er ekki endilega sammála því, það er kannski ósátt við það og finnst það ósanngjarnt gagnvart sér en það skilur lógíkina á bak við það. Það sem mér hefur fundist fólk eiga erfiðara með að skilja og ég átti sjálfur erfiðara með að skilja þegar ég komst að þessu er að þarna er verið að bæta fyrir löglega fjölföldun, þ.e. til einkanota sérstaklega. Það finnst fólki ekki vera mjög rökrétt. Ef maður kaupi geisladisk og fer aðeins aftur í tímann og skellir lögunum á kassettu og fer með það í bílinn, þykir það fráleit hugmynd að maður ætli að kaupa efnið aftur. Það er það sem fólk fattar ekki. Eðlilega að mínu mati.

Þess vegna er þessi málaflokkur oft talsvert furðulegri en fólk áttar sig á. Þetta er að mínu mati flóknasti eignarréttur sem er til, auðvitað með þeim fyrirvara að ég þekki ekki fjármálaheiminn til hlítar. Finnst hæstv. ráðherra það rökrétt að kaupa efni einu sinni og kaupa það síðan aftur þegar maður ætlar að nota það á öðrum stað, heima hjá sér eða í bílnum eða eitthvað því um líkt? Og ef ráðherra telur það órökrétt, hver er þá skaðinn?