145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[19:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarni málsins sem hv. þingmaður kemur hér að, þ.e. að með þessu fyrirkomulagi erum við að gera eintakagerðina löglega. Vandinn er sá að þegar listamaður eða höfundaréttarhafi selur eitt eintak af verki sínu sem síðan er hægt að taka og fjölfalda og nota þar af leiðandi með öðrum hætti en því fylgir að hafa bara eitt eintak, verður viðkomandi listamaður eða höfundaréttarhafi í raun fyrir fjárhagslegu tjóni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé þannig, þ.e. að það að selja lag eða bók, eða hvað það nú er, þýði ekki þar með að maður hafi selt óendanlega mörg eintök af því sem síðan er hægt að dreifa með einhverjum hætti.

Við skulum taka til dæmis lag sem hefur verið keypt, og þá er hægt að dreifa því á endalaust marga miðla og afhenda. En með því að greiða fyrir afritunarmöguleikana og gera það löglegt geta einstaklingar tekið afrit með löglegum hætti áhyggjulaust og nýtt það. Það er það sem málið gengur út á, að gera afritunina löglega þannig að höfundaréttarhafarnir fái greitt og almenningur geti stundað löglega afritun. Mér finnst það vera kjarni þessa máls. Hér er með öðrum orðum ekki verið að greiða eða ræða streymiveitur eða neitt þess háttar, það er ekki umræðan hér. Hér er fyrst og fremst verið að tala um það efni sem menn hafa löglega undir höndum og geta fjölfaldað. Hér er um það að ræða. Svar mitt við fyrirspurn þingmannsins er þetta: Já, ég tel eðlilegt að greitt sé fyrir möguleikann til þess að fjölrita eða afrita með þessum hætti og ég tel skynsamlegt að gera það úr sameiginlegum sjóðum með þessum hætti þannig að við verðum öll lögleg, ef svo má að orði komast, þegar að því kemur.