145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum sem fjallar um eintakagerð til einkanota. Það er ýmislegt að segja um þetta mál og reyndar ýmislegt að segja um það sem þetta mál er ekki. Mig langar að hefja ræðu mína á að leiðrétta strax misskilning sem virðist koma upp um leið og málið eða sambærileg mál í fortíðinni eru nefnd. Skilningur mjög margra er að vegna þess að svokölluð ólögleg dreifing á efni eigi sér stað með því að fólk fjölfaldi og dreifi í leyfisleysi og fremji svokallað ólöglegt niðurhal, þurfi að bæta þann skaða til rétthafa. Þetta mál fjallar ekki um það. Þau lagaákvæði sem málið fjallar um fjalla ekki um það heldur. Það er erfitt að útskýra þetta á mannamáli vegna þess að það sem er verið að gera, bæði með þessu frumvarpi og ákvæðinu sem lögunum er ætlað að breyta, að til staðar er fyrirkomulag sem er mjög fjarlægt hinum venjulega notanda, mjög fjarlægt siðferðiskennd hans, raunveruleika hans, fjarlægt allri hugsun sem venjulegt fólk hefur gagnvart einkarétti og eignarrétti, þ.e. ef það er ekki höfundur sjálfur eða einhver sem hefur sökkt sér í þessi mál.

Afritun segjum af geisladiski yfir á kassettu til einkanota, segjum sem svo að maður kaupi sér geisladisk með tónlist, tíu lögum eða svo, og vilji spila þetta í bílnum, maður gerir afrit og setur á kassettu til að hafa í bílnum og hlustar á hana þar. Hugmyndin með ákvæðinu sem hér er til umræðu er að þetta feli í sér skaða fyrir rétthafann. Fyrir áhugasama mæli ég með því að þeir fletti upp ágætu samtali mínu við hæstv. ráðherra í lok ræðu hans hér áðan. En í stuttu máli má segja þetta svona: Þetta er lagatæknilegt atriði sem virðist fráleitt hinum venjulega borgara vegna þess, ja, að mínu mati er það fráleitt. Það er hins vegar lagatæknileg nauðsyn vegna þess að við erum aðilar að alþjóðasamstarfi, við höfum eignarréttarákvæði í stjórnarskrá, sem betur fer, sem hefur verið túlkað þannig að það sé réttur höfunda að ákveða hvenær afrit af eintaki sé gert.

Það sem er líka misskilningur við þetta mál í umræðunni, sem ég hef tekið eftir hingað til, er að hér sé verið að útvíkka innheimtuna sem hefur átt sér stað í gegnum árin á þessum miðlum, tómum kassettum, tómum vídeóspólum og öllu þessu. Hér sé verið að útvíkka það til að taka utan um fleiri hluti, sem er ekki tilfellið. Tilfellið er þveröfugt, það er verið að afnema þessa innheimtu. Í stað þess að rukka gjald af hverjum USB-lykli, geisladiski o.s.frv., opinberan skatt, í stað þess að innheimta þetta gjald er það einfaldlega borgað úr ríkissjóði. Þetta er kannski ekki endilega til að auðvelda skilning hins almenna borgara á því hvað hér á sér stað, en í því liggur líka það sem ég hef í raun og veru út á málið að setja. Málið í sjálfu sér er gott að mínu mati. Það er þarna hins vegar orðalag sem ég á ofboðslega erfitt með, þ.e. að þetta sé kallaður skaði. Ef þetta væri einfaldlega kallað ríkisstyrkt listsköpun eða ef verið væri að borga rétthöfum fyrir að þeir hafi gefið út efni, gott og vel. Það mundi ég skilja betur frá sjónarmiði hins almenna borgara. Orðalagið sem ég sé í þessu frumvarpi og reyndar oft í þessum málaflokki skil ég eingöngu á lagatæknilegum forsendum og alls ekki samkvæmt neinni almennri skynsemi og ekki samkvæmt því sem ég upplifi sem sanngirni gagnvart rétthöfum. Þá er ég ekki að segja að rétthafar eigi ekki að fá borgað. Auðvitað eiga þeir að fá borgað. En hins vegar er sú hugmynd að rétthafar verði fyrir skaða við það að einhver afriti efni sem hann hefur keypt löglega til einkanota að mínu mati fráleit. Mér finnst það fráleit hugmynd. Maður kaupir t.d. geisladisk, en það er ekki geislaspilari í bílnum heldur kassettutæki, og í stað þess að afrita geisladiskinn yfir á kassettu mundi maður þurfa að kaupa nýja kassettu. Mér finnst það fráleit hugmynd. En svo dettur mér í hug: Hvað ef maður tæki einfaldlega geisladiskinn með sér og væri með geislaspilarann í bílnum? Er það þá ekki skaði? Er það ekki skaði í hvert einasta sinn sem lagið fer í gegnum minnið á tölvunni? Er það ekki skaði í hvert einasta sinn sem maður hlustar á hann í stofunni einn daginn og síðan í eldhúsinu hinn daginn? Nei, auðvitað er það ekki skaði. Fráleit hugmynd að þetta sé skaði. En við búum jú við þennan lagatæknilega raunveruleika og aðild okkar að þessum alþjóðlegu stöðlum og lögum sem hafa þróast kannski ekki með því móti að séð væri fyrir hvernig tæknin mundi þróast eða best væri að haga þessum höfundaréttarmálum til frambúðar. Reyndar er það heila ástæðan fyrir því að flokkurinn sem ég er hluti af er til, nefnilega Píratar.

Eins og mér finnst þetta mál í rauninni fráleitt að þessu leyti, þá verður samt sem áður að viðurkennast að hérna er verið að afnema fyrirbæri sem fólki hefur fundist mjög ósanngjarnt. Þrátt fyrir að sú tilfinning hafi verið byggð á misskilningi hygg ég samt að hún sé rétt. Fólki finnst ósanngjarnt að það sé rukkað fyrir að kaupa tóma geisladiska, harða diska, USB-lykla o.s.frv., fyrir eitthvað sem einhver annar gerir. Þar eru líka sanngirnissjónarmið til staðar og fólk hefur eðlilega verið mjög reitt yfir þeirri hugmynd að verið sé að borga fyrir meintar syndir einhvers annars. Nú eru það ekki syndir annarra heldur eitthvað sem lagalega er heimilt, nefnilega afritun til einkanota. En misskilningurinn veldur því að fólk er ofboðslega reitt yfir þessu og á erfitt með að skilja þetta. Og nú stend ég frammi fyrir því að ég styð þetta mál hálfvolgur með þó nokkrum fyrirvörum. Enn sem komið er. Þegar sennilega flestir, nei, allir sem ég hef heyrt tala um þetta hingað til misskilja það á tvöfaldan hátt. Misskilja það á þann hátt að telja að þetta komi ólöglegri dreifingu eitthvað við, sem er ekki tilfellið, og hins vegar að verið sé að auka innheimtuna út af því, sem er ekki tilfellið heldur. Ef maður vill losna við þessa innheimtu, ef maður er á móti því að taka þetta gjald af þessum vörum, þá ætti maður að vera hlynntur þessu máli. Alla vega þeim þætti þess.

Eins og ég segi: Mér þykir orðalagið undirstrika hvað þessi málaflokkur er flókinn í augum hins almenna borgara. Hvað hann er í raun og veru frábrugðinn þessum hefðbundnu sanngirnissjónarmiðum sem við öll erum alin upp við. Hérna er til að mynda málið með höfundarétt. Þetta er það sem gerir höfundarétt flókinn. Þegar við ölumst upp í barnæsku lærum við af foreldrum okkar og umhverfi að það sé rangt að stela. Það er rangt að meiða fólk, það er rangt að ljúga. Við ölumst upp við þetta og við öðlumst einhvers konar siðferðiskennd byggða á þeim viðmiðum sem samfélagið gefur okkur. Ókei, gott og vel. En hvenær var maður alinn upp við það að ef maður syngi afmælislag í tuttugu manna partíi þyrfti að fara að borga einhverjum? Aldrei. Maður elst ekki upp við það kerfi sem höfundalög og höfundaréttur í raun og veru byggir á. Þetta er bara ekki með inni í upplifun okkar af sanngirni í uppeldinu, á unglingsárunum eða hvaðeina. Nema að því leyti að þegar við notum einhverja vöru, þ.e. hugverk, án þess að borga fyrir það, það geta flestir skilið. Næstum því allir geta skilið það. Það er held ég sennilega eitt af því fáa í þessum höfundalögum sem getur talist til hinnar almennu skynsemi, svona „common sense“, með leyfi forseta, afsakið slettuna, sem við ölumst upp við í uppeldi okkar og samskiptum við annað fólk á uppvaxtarárunum. En þar með er það næstum því upp talið. Restin af höfundarétti fyrir hinum almenna notanda er á lagatæknilegu máli sem er svo fjarlægt hugmynd notandans um sanngirni að hann misskilur þetta mál þannig að það sé akkúrat öfugt við það sem það raunverulega er. Ég álít að þetta sé svolítið vandamál. Ég held ekki að það sé vandamál sem við leysum með því að kenna höfundarétt í skólum, enda held ég að það væri óttaleg tímasóun miðað við hver afraksturinn af því yrði. Ég veit sömuleiðis að ekki er raunhæft í bili að fara að endurskoða þessar gömlu hugmyndir um höfundarétt og allar þær lagatæknilegu, réttindalegu afleiðingar. En ég held að ef við værum að finna upp höfundarétt í dag, ef við værum að ákveða í dag að við ætluðum að taka upp höfundarétt af einhverju tagi með hliðsjón af nútímatækni væri hann hvergi nálægt því að vera líkur höfundarétti eins og hann hefur verið í gegnum tíðina. Ég held að ef við mundum leggja til núverandi skilning á höfundarétti inn í nútímatækni, ef við værum að leggja það fram núna, yrði fólk bara forviða. Það mundi ekki skilja hvað við værum að tala um. Það vill svo til að það skilur ekki hvað við erum að tala um. Vegna þess að þetta er svo fjarlægt raunveruleikanum sem notandinn upplifir.

Það er eitt í frumvarpinu sem ég á pínulítið erfitt með líka, fyrir utan þetta. Það er a-liður 1. gr. en þar er bætt við nýjum málslið við 1. mgr. 11. gr. laganna og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Heimild til gerðar stafræns eintaks er þó bundin við einstakling sem hefur lögmæt umráð eða aðgang að upprunaeintaki sem er dreift eða gert aðgengilegt með heimild rétthafa þess.“

Virðist saklaust. Eflaust er þetta saklaust. Þetta er til þess að skýra einhverja réttaróvissu, skilst mér. En ég sé ekki fyrir mér nákvæmlega hvaða afleiðingar þetta hefur á þær aðferðir sem menn hyggjast beita í framtíðinni til að framfylgja höfundarétti. Það er það sem ég er alltaf svo hræddur við, og við í Pírötum, hvernig menn ætla að framfylgja höfundarétti. Það er svo hætt við því á upplýsingatækniöldinni að menn fari að beita aðferðum sem storka og ögra borgararéttindum á borð við friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi o.s.frv. Reyndar er í lögunum í 59. gr. a, nánar tiltekið 2. mgr., dæmi um það að okkar mati hvernig framfylgni höfundaréttar getur verið mjög til trafala á upplýsingatækniöldinni. Í því liggur þessi togstreita sem bjó til flokkinn minn, Pírata. Mér er óljóst nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á það. Það er það sem ég hef að segja um það í bili.

Hitt er síðan, hérna á lokamínútunum, sú hugmynd að nota einhverjar ákveðnar prósentur af tollverði sem viðmið sem ríkið notar til að greiða út til rétthafa finnst mér í fljótu bragði frekar skynsamleg. Burt séð frá þessu, burt séð frá orðalaginu, burt séð frá þessum klassísku hugmyndum um höfundarétt. Lausnin sem slík hugnast mér ágætlega. Upphæðin, sumir hneykslast á þeirri upphæð, þetta er nú ekki stór upphæð í samhengi fjárlaga og reyndar ekki heldur í samræmi við þann meinta skaða af völdum svokallaðrar ólöglegrar fjölföldunar sem rétthafar á Íslandi hafa tilgreint, sem þeir segja í kringum milljarð á ári, skilst mér. Ef ég man rétt.

Raunveruleg, augljós áhrif frumvarpsins tel ég góð, vissulega miðað við núverandi fyrirkomulag sem er að innheimta þetta af hverju tæki í sjálfu sér. Ég á í svolitlum vandræðum með málið eins og er. Ég styð í raun og veru hvað það gerir, hverju það veldur, með þeim fyrirvara sem ég nefndi um a-lið 1. gr. En mér finnst orðalagið fráleitt. Mér finnst hugmyndafræðin sem þetta byggir á vera bæði úrelt, flókin og ruglingsleg og úr öllum tengslum við upplifun notandans af réttindum og skyldum, sanngirni og siðferði og þvílíku. Við sjáum til hvernig viðhorf mín til þessa máls þróast meðfram nefndastörfum. En mér þykir þetta hið áhugaverðasta mál og það segir sitt, finnst mér, að þótt málið sé frekar einfalt í sjálfu sér, ef maður les breytinguna og það sem verið er að breyta, þá er þetta í sjálfu sér ekki flókið. Það er hægt að fara yfir þetta á korteri, tuttugu mínútum, eitthvað svoleiðis, hvað þetta þýðir allt saman. Hins vegar er greinargerðin ógurlega löng. Það er ekki bara vegna þess að hæstv. ráðherra er svo duglegur og útskýrir þetta svona vel, þetta er vel unnið frumvarp, það er ekki bara það, þetta er líka einkenni málaflokksins, einkenni höfundaréttar. Hann er óheyrilega flókinn. Það er óheyrilega mikið af efni og alls konar flóknum álitamálum sem fara fyrir dóm hér og þar um hluti sem ættu að vera einfaldir. Við ættum ekki að vera að tala um einhver hæstaréttarfordæmi fyrir því hvort það að einhver hnupli úti í búð sé ólöglegt eða ekki. Sá hluti af siðferðiskennd sem við ölumst upp við í mannlegu samfélagi er einfaldur og hann er augljós. Við getum alið börnin okkar upp með eðlislæga, ekki eðlislæga en svona uppalda siðferðiskennd að því marki. Þegar kemur að höfundarétti er það bara meira en að nefna það.

Enn og aftur, ég hygg að þetta sé vandamál sem með tíð og tíma verður leyst. Guð má vita hvað svo sem þarf til þess. En þá er tíma mínum lokið og ég hlakka til að halda áfram að tala um málið í nefnd og auðvitað í umræðum síðar.