145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eitthvert flóknasta mál sem ég hef komist í tæri við. Ég tel þó að þau fjögur álit sem liggja fyrir frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og utanríkismálanefnd gefi góða mynd af því, og svo sem líka því hversu vel við höfum rannsakað málið. Ég tel að málið sé þaulrannsakað og vil líka taka undir það sem hv. formaður utanríkismálanefndar sagði um hina góðu vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég tel að hún hafi í reynd sannað gildi sitt með þessari miklu vinnu.

Kem ég þá að framsögu hv. þingmanns sem var að öllu leyti prýðileg. Það er þó eitt sem ég finn að. Hv. þingmaður sagði að komið hefði í ljós að það væri bara ein leið til þess að láta þetta ríma við stjórnarskrána og það væri að fara tveggja stoða leiðina sem Skúli Magnússon útfærði. Ég vil leyfa mér að gera ágreining við hana um það. Það er önnur leið, hún felst í því að breyta stjórnarskránni. Við höfum sagt það mörg að kominn sé tími á að henni sé breytt og komið sé þar inn ákvæði sem heimili framsal valds eftir atvikum bara til EES-stofnana eða til annarra yfirþjóðlegra stofnana. Það vil ég að liggi alveg skýrt fyrir af minni hálfu. Þannig hefðum við getað leyst þetta.

Í öðru lagi. Hér er um að ræða mesta framsal valds frá því að við fórum inn í EES. Ég bendi hv. þingmanni á að Norðmenn telja að hér sé um meiri háttar framsal að ræða og þess vegna fara þeir þá leið að nota í fyrsta skipti framsalsákvæði stjórnarskrárinnar til þess að samþykkja þetta. Við förum þá leið að skoða líka fyrri framsöl við fyrri innleiðingar. Vekur það ekki ugg hjá hv. þingmanni þegar hún sér hvernig Norðmenn hantera þetta, um að við séum hérna að stíga lengra skref en stjórnarskráin þolir?