145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek algjörlega undir það með hv. þingmanni að málið er flókið. Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að þetta er kannski eitt af stærstu málunum sem við höfum verið að vinna með hvað varðar það að teygja þetta valdsvið innan stjórnarskrár okkar. Hv. þingmaður nefnir að það hafi sannarlega ekki verið bara ein leið fær, en ég var auðvitað að vísa til þess að vinna þetta innan gildandi stjórnarskrár. Ég var ekki að tala um að við hefðum getað breytt stjórnarskránni til þess að aðlaga hana að þessu máli heldur var í þeim lausnum sem bent var á af hálfu þeirra lögspekinga sem að málinu komu vísað til þess hvernig við gætum unnið það með gildandi stjórnarskrá.

Ég held líka og tek undir það, og við höfum auðvitað rætt það mikið á fundum hv. utanríkismálanefndar að við séum komin nálægt jaðrinum í þessu máli, og það kemur fram í áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við erum komin á þann stað að við erum klárlega hugsi yfir því, annars værum við ekki búin að eyða í þetta eins löngum tíma og raun ber vitni. Við erum búin að vera að skoða málið, eins og bent hefur verið á ítrekað. Ég hef hins vegar í starfi nefndarinnar og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sannfærst um og fallist á þau rök sem þar koma fram, og eins þau rök sem fram koma í máli lögspekinga okkar um að þetta rúmist innan stjórnarskrárinnar og að við séum þarna að leysa málið eins vel og mögulegt er. Ég held að það sé talsverður sigur miðað við hvernig málið var lagt upp í byrjun að við séum að nálgast það eins og við gerum í dag, að við séum komin með það í það kerfi sem við náðum samstöðu um, það er mikill árangur. Ég veit afstöðu hv. þingmanns til málsins og ég skil að mörgu leyti áhyggjur hans.