145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt ræður úr þessum stóli þegar við samþykktum inngönguna í EES. Á þeim tíma töldum við að þetta yrði statískur samningur, en ekki jafn dýnamískur eins og hann hefur orðið. Hann er stöðugt að breytast. Það er stöðugt verið að krefjast meira framsals. Þetta er í fyrsta skipti sem við stígum fram yfir það að framselja einungis sektarvald til yfirþjóðlegra stofnana. Hér erum við að framselja vald til yfirþjóðlegra stofnana sem getur við tilteknar aðstæður bókstaflega stöðvað rekstur fyrirtækja, bannað tiltekna fjármálastarfsemi. Og það sem meira er, núna liggja fyrir utanríkismálanefnd þrjú önnur mál. Ég held að a.m.k. tvö þeirra bíði eftir afgreiðslu þessa svo við getum líka notað sama módel þar. Við erum því alltaf að fara lengra og lengra frá hinum gráa jaðri stjórnarskrárinnar sem hinir fjórir stjórnvitringar sem lögðu grunninn um stjórnskipulegan grunn að þessu 1993 sögðu að ekki mætti fara yfir. Þeir sögðu einmitt: Ef í ljós kemur að þróunin verður með öðrum hætti verðum við að endurskoða stjórnarskrána. Ef við komumst að því að við förum yfir þennan gráa jaðar ber okkur skylda að þjóðarétti til að gera það. Yfir hann finnst mér að við séum að fara með þessu máli.

Þar að auki er eitt sem mér finnst jafnan skorta á meðferð þingsins á þessum málum, það er að við horfum á hin fyrri mál. Aftur og aftur koma stjórnskipunarbrekkur til þingnefnda og þingsins og segja: Elskurnar mínar, skoðið málið, en þið verðið líka að skoða hin málin og þið verðið að leggja saman hversu mikið er búið að framselja valdið. Það kemur hugsanlega að þeim punkti, hefur verið sagt öll þessi ár, þar sem við erum komin yfir. Það er ekki efamál í mínum huga að það er a.m.k. ekki hægt að orða það öðruvísi en svo að verið sé að þjarma all óþyrmilega að stjórnarskránni með þessu. Það hefði verið miklu hreinlegra og okkur liði miklu betur með málið ef við hefðum breytt stjórnarskránni jafnvel þó að það hafi verið svo þröngt sem einungis (Forseti hringir.) að heimila til yfirþjóðlegra stofnana sem tilheyrðu EES. Ég hefði auðvitað viljað ganga lengra sem menn vita. En jafnvel það (Forseti hringir.) mundi a.m.k. bæta nætursvefn minn.