145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður haldi góðum nætursvefni, ég held að það skipti hann og okkur öll máli.

Ég vil árétta það, vegna þess að við höfum sjálfsagt öll tekið þátt í samtali og umræðum um þetta mál og öll velt fyrir okkur stjórnarskránni í því samhengi, að við í meiri hluta hv. utanríkismálanefndar höfum hallað okkur upp að álitsgerð Skúla Magnússonar. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að framsal valdheimilda samkvæmt fyrirliggjandi tillögum um aðlögun reglugerðar Evrópusambandsins um fjármálaeftirlit að EES-samningnum samræmist í heild sinni íslenskum stjórnarskipunarlögum. Sama niðurstaða kemur fram í umsögn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nefndin telur eftir þessa umfjöllun“ — og hún var nú ansi ítarleg á vettvangi nefndarinnar — „að lögfræðileg umgjörð málsins sé ekki með þeim hætti að takmarka eigi svigrúm löggjafans eða dómstóla til að grípa til allra þeirra aðgerða sem rúmast innan stjórnarskrár og teljast nauðsynlegar til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins …“

Á þessu hvílir álit hv. utanríkismálanefndar og þess vegna erum við, hv. þingmaður og ég, ekki sammála um að við séum hér að stíga út fyrir þann ramma. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni, ég held að þingið sé hér búið að sýna það í verki hversu mikil alvara og vinna er lögð í það þegar þingið hefur af því áhyggjur af því að við séum að stíga út fyrir rammann. Ef við hefðum samþykkt málið eins og það lá fyrir hér 2012 held ég við hefðum verið að gera það. En miðað við þá tveggja stoða lausn sem við nú höfum í höndunum held ég að við séum ekki að gera það og ég er sannfærð um að við séum ekki að gera það.