145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart að ekki skuli fleiri hv. þingmenn ætla að taka þátt í þessari umræðu. Þetta er auðvitað stórmál sem við ræðum hér, sem hefur lengi verið til umræðu í þinginu. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, fór vel yfir aðdraganda málsins í ræðu sinni, hvernig það hefur þróast í meðförum og samskiptum íslenskra stjórnvalda og annarra EFTA-ríkja við Evrópusambandið og hvernig sú leið að mynda tveggja stoða lausn, í staðinn fyrir að þessi EFTA-ríki yrðu hluti af yfirþjóðlegum stofnunum Evrópusambandsins, þróaðist í þeim samskiptum, sem kemur fram í nefndaráliti mínu í þessu máli að er algjör lykilforsenda gagnvart stjórnarskránni.

Það breytir því ekki að samt sem áður er verið að framselja valdheimildir til yfirþjóðlegra stofnana þrátt fyrir þann fyrirvara sem sleginn er með því að setja inn það ákvæði að íslenskum stjórnvöldum sé heimilt að beita neyðarrétti ef upp kemur slíkt ástand að það er talið ógna fjármálakerfinu á þann hátt að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana. Það breytir því ekki að við erum að fara í það verkefni að framselja tilteknar valdheimildir til yfirþjóðlegra stofnana í gegnum samstarf okkar í EFTA. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að tveggja stoða lausnin var eina mögulega lausnin. Ég vil taka það fram að ég hef ekki verið þátttakandi í starfi utanríkismálanefndar og kom aðeins inn á þennan lokafund þar sem málið var afgreitt af nefndinni. Mér fannst eigi að síður mikilvægt að gera grein fyrir því sjónarmiði í sérstöku nefndaráliti að það er margt í þessu máli sem veldur mér áhyggjum.

Við erum að taka upp þetta nýja fyrirkomulag fjármálaeftirlits vegna viðbragða Evrópu við fjármálakreppunni. Við höfum horft upp á mjög miklar innleiðingar á regluverki frá Evrópu hér í þinginu, mismunandi regluverki, regluverki sem ég hef velt fyrir mér hvort þjóni þeim raunverulega tilgangi sem það á að þjóna. Ég skil vel viðbrögð stjórnvalda í ljósi þess að fjármálakreppan sprettur af því að búið er að afregluvæða allt fjármálakerfið og það er í raun enginn sem hefur eftirlit með fjármálakerfinu. Við fáum svo hrun fjármálakerfisins. Viðbrögð stjórnvalda eru þau að bæta regluverkið og staga það og setja nýjar reglur, en við hljótum líka að spyrja okkur hvort þær reglur dugi og hvort þær hafi þau áhrif að breyta gildum og menningu innan fjármálageirans. Það eru æ fleiri sem benda á að við þurfum virkilega að taka fjármálageirann til umræðu, hvort við komumst fyrir þann vanda sem þar virðist vera inngróinn með eilífri reglusetningu eða hvort málið kalli á dýpri umræðu. Þá er ég að vitna til þess að fjármálageirinn hefur á undanförnum tveimur áratugum breyst og farið að snúast miklu meira um viðskipti innan sinna eigin raða, þ.e. fjármálafyrirtækja hvert við annað en ekki útlán og innlán til almennings og almennra fyrirtækja. Eðlisbreyting hefur orðið á fjármálakerfinu og það hefur skapað miklu meiri kerfisáhættu fyrir atvinnulífið og fyrir almenning.

Síðan förum við í það — íslensk stjórnvöld, evrópsk stjórnvöld o.fl. — með það heiðarlega markmið að reyna að girða fyrir að þessi kerfisáhætta skapist, að auka regluverk. Við getum líka spurt okkur hver tilgangurinn sé með reglusetningunni ef umræðan og menningin hafa ekkert breyst, ef við mundum bara virða umferðarreglurnar þegar einhver væri að fylgjast með. Flest virðum við umferðarreglurnar af því það er menningin sem er okkur innprentuð, við ætlum að fylgja umferðarreglunum. Við ætlum ekkert að keyra yfir á rauðu af því einu að enginn nær í okkur. Þetta er, held ég, stærri og dýpri umræða en við getum tekið hér.

Mig langar að beina sjónum að öðru atriði, en Fjármálaeftirlitið er hluti af þessu. Ég skil mætavel þá tilraun sem hér er gerð, þ.e. að koma á einhvers konar samræmdu eftirliti. Við vitum að á meðan við erum hluti af EES þá er þetta alþjóðlegur markaður. Að einhverju leyti verður eftirlit með reglusetningu á þessum markaði ekki gerlegt nema í alþjóðlegu samstarfi. Það er bara eðli máls samkvæmt. Eins og ég kom að hér áðan hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á það, og það hafa norsk stjórnvöld gert og liechtensteinsk stjórnvöld væntanlega líka, að til þess að innleiða slíkt fjármálaeftirlit með EFTA sé mikilvægt að horfa til tveggja stoða kerfisins. Þessi lausn hefur nú verið afgreidd bæði í Liechtenstein og Noregi og á það hefur verið þrýst að þessu máli verði loki hér á Íslandi.

Ég vil vekja athygli á því að í Noregi, þar sem þetta mál var afgreitt þann 13. júní sl., var þessi innleiðing metin sem meiri háttar framsal samkvæmt ákvæði í norsku stjórnarskránni um að framsal valdheimilda geti annars vegar verið minni háttar framsal og hins vegar meiri háttar framsal. Meiri háttar framsal kallar á aukinn meiri hluta þingmanna, þrjá fjórðu hluta þingmanna, og einnig er gerð krafa um lágmarksmætingu þeirra þingmanna sem mæta í þá atkvæðagreiðslu. Þessi afgreiðsla kallaði á gríðarlega mikla umræðu í Noregi, hvort menn væru reiðubúnir að ganga að slíku framsali valdheimilda. Tillagan var samþykkt með 136 atkvæðum gegn 29 sem uppfyllti kröfuna um aukinn meiri hluta, en umræðan var hins vegar mikil og ekki bara á Stórþinginu heldur líka í samfélaginu öllu af því að fólki fannst mjög mikilvægt að taka það upp á borðið hvað þessi innleiðing fæli í sér þegar kæmi að framsali valdheimilda.

Í íslensku stjórnarskránni er hins vegar ekkert ákvæði um það hvernig skuli staðið að framsali valdheimilda. Ég hef setið í stjórnarskrárnefndinni sem hefur starfað á þessu kjörtímabili og í áfangaskýrslu nefndarinnar frá árinu 2014 segir, með leyfi forseta:

„[Þ]ótt slík heimild hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála. Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunarinnar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar.“

Það hefur hins vegar komið fram í umræðum um stjórnarskrá að fulltrúar stjórnarflokkanna lögðust gegn því að nefndin skilaði frá sér tillögu um slíkt ákvæði. Þrátt fyrir að þetta hafi verið talinn talsverður galli á stjórnarskránni og þrátt fyrir að ýmsir forkólfar Sjálfstæðisflokksins, svo að dæmi sé tekið, hafi talað mjög fyrir því að þörf væri á slíku ákvæði þá lögðust fulltrúar stjórnarflokkanna gegn því að skilað yrði tillögu að ákvæði um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu.

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga. Því þó að ég styðji það almenna sjónarmið að mikilvægt sé að ná tökum á fjármálamarkaðnum, þó að ég leyfi mér að benda á að aukið regluverk er ekki endilega alltaf lausnin á þeim vandamálum sem við glímum við, þá erum við þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi gegnum EES-samninginn. Þó að þeir sem tala hvað mest um fullveldi þjóðarinnar vilji meina að fullveldið skaðist við það að setja slíkt framsalsákvæði í stjórnarskrá þá veit ég ekki hvort betra er að ganga með bundið fyrir augun inn í slíkt alþjóðasamstarf og hafna því að slíkt framsal eigi sér stað. Ég ætla ekkert að segja um það, ég get ekki verið dómari um það, ég er ekki sérfróð á þessu sviði. Þó finnst mér það umhugsunarefni eftir umfjöllunina — ég ítreka að ég sat ekki í utanríkismálanefnd við umfjöllun málsins en hef fylgst með því frá EFTA-nefndinni þar sem ég sit og á fyrri stigum í utanríkismálanefnd — að við hljótum a.m.k. að ræða það gráa svæði sem við erum á. Þetta varðar það hvernig við fylgjum gildandi stjórnarskrá. Ég tel að það sé óheppilegt, og hefði talið að fleiri þingmenn væru mér sammála um það, að við höfum ekki náð að skila af okkur tillögu um afmarkað framsal á afmörkuðu sviði í þágu alþjóðasamvinnu til þess að komast hjá því að við séum að fara yfir álitsgerðir sérfróðra aðila í hvert sinn sem um er að ræða framsal valdheimilda eins og um er að ræða hér.

Ég hlýt í þessu máli að lýsa ákveðnum efasemdum af þessum sökum. Ég tel að það sé afar bagalegt að við ljúkum þessu kjörtímabili án þess að slíkt ákvæði, sem við höfum mörg hver talað fyrir lengi, komi inn, fyrst og fremst vegna þess að einhverjir hafa áhyggjur af fullveldinu. Ég hef miklar áhyggjur af fullveldinu þegar við meðhöndlum málin á þennan hátt. Ég vil að lokum segja að ég tek undir þau sjónarmið sem skýrð eru í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fylgir hér með áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um heimildir stjórnvalda til að bregðast við neyðarástandi og verja efnahagslegt sjálfstæði á hættutímum og þá sérstöku yfirlýsingu sem gefa skal í sameiginlegu EES-nefndinni um upptöku gerðanna sem skýrir þann skilning Íslands að þessi innleiðing hafi ekki áhrif á þann rétt EES-ríkjanna að taka grundvallarákvarðanir um efnahagslegar aðgerðir til að bregðast við kerfisvanda. Ég tel að þarna sé verið að reyna að ítreka rétt okkar í þessu alþjóðlega samstarfi. Ég teldi eðlilegra að við værum að fjalla um þetta mál sem meiri háttar framsal eins og Norðmenn gerðu og við værum þar að fylgja skýru ákvæði í stjórnarskrá og að þessi umræða væri ekki bundin við þingsalinn eins og hún hefur að miklu leyti verið, heldur væri miklu meira úti í samfélaginu. Þetta er stórmál, frú forseti, og á fullt erindi í almenna umræðu eins og gerðist í Noregi. Ég undrast það hve litla athygli þetta mál hefur vakið.