145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður læsi það upp fyrir mig, úr nefndaráliti meiri hlutans, sem henni finnst algjörlega í gadda slegið, að það liggi fyrir sameiginlegur skilningur. Það er alveg rétt að á fundi nefndarinnar komu fram vísbendingar um að þetta hefði verið heflað upp og pússað. En ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að formaður utanríkismálanefndar skýri það með sterkari hætti hvort eitthvað liggi fyrir sem er haldtækt í þeim efnum því að á því hvílir allt þetta bix. Það er náttúrlega stóra spurningin: Heldur þessi sérstaka yfirlýsing eða ekki? Bara það að ríkisstjórnin skuli hafa fallist á það með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gefa þurfi slíka yfirlýsingu sýnir hve málið var vanbúið og illa reifað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er með öðrum orðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem uppgötvar að þarna er ákveðinn leki í málinu öllu og það er fyrir hennar tilstilli sem þessi sérstaka yfirlýsing er gefin. Ég segi það fyrir mína parta að mér finnst að það skipti gríðarlega miklu máli að áður en við ljúkum þessari umræðu komi það fram hjá hv. formanni utanríkismálanefndar, skýrar en sagt var í framsögunni og skýrar en segir í nefndarálitinu, að fyrir liggi gagnkvæmur skilningur. Því ef svo er ekki, hvar erum við þá stödd? Þá erum við stödd á upphafspunkti. Er þetta ekki til að undirstrika það, frú forseti, á hversu gráu svæði við erum stödd?