145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hér er vitnað til þess að í nefndaráliti meiri hlutans, sem ég ætla ekki að gerast sérstakur talsmaður fyrir, kemur fram að slík yfirlýsing sé réttarskýrandi fyrir innlenda dómstóla og muni kalla á gagnyfirlýsingar viðsemjenda ef efnislegur ágreiningur verður um þennan skilning Íslands á hinum alþjóðlega vettvangi. Enn fremur kemur hér fram að haft hefur verið samráð við fjármála- og utanríkisráðuneytið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að hér sé staðfest með einhverjum hætti að það ríki sameiginlegur skilningur hvað varðar þennan neyðarhemil innan EFTA-ríkjanna og innan sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það væri líka áhugavert, og nú gæti það komið fram hér í ræðum á eftir, að vita hvernig utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, sem væntanlega fara með málið fyrir hönd Íslands, væntanlega kannski fyrst og fremst utanríkisráðherra, hafa kynnt þennan fyrirvara fyrir samráðherrum sínum innan EFTA og hvernig honum hefur verið tekið í ljósi þess að mér er ekki kunnugt um að önnur ríki hafi sett slíka neyðarhemla eða sett slíkar bókanir eða látið þær fylgja.

Þó að ég taki undir þau sjónarmið að slíkur hemill sé til staðar þá vill maður vita hvort hann muni halda. Mun hann koma að gagni? Vitnað er til ákveðinna fordæma um rétt fullvalda ríkja til að gera ráðstafanir þegar efnahagsvá ber að höndum. Þau eru rakin hér í nefndaráliti meiri hlutans, en þetta þarf auðvitað að vera í gadda slegið.

Af því að hv. þingmaður telur mig hafa treyst þessu um of, þegar ég vitnaði til nefndarálits meiri hlutans hér áðan, þá er það kannski fyrst og fremst það að mér finnst mikilvægt að þingmenn séu meðvitaðir um að við þurfum að hafa það algjörlega á hreinu, áður en málið er samþykkt eða afgreitt hér á þinginu, að við teljum öruggt að þessi neyðarventill virki sem skyldi.