145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir frábæra ræðu og ekki síðra nefndarálit. (Gripið fram í.)— Það er ekki komið að þér. Ég held að þetta nefndarálit mundi alveg duga sem a.m.k. bærileg BA-ritgerð í lögfræði og ræðan kannski efni í meistararitgerð. En ég velti einu fyrir mér. Ég er alveg sammála því að það er á gráu svæði, jafnvel dökkgráu svæði, hvort málið sé innan heimilda 2. gr. stjórnarskrárinnar. En ef við hefðum farið þá leið að breyta stjórnarskránni og við samþykktum þetta á grundvelli heimilda í stjórnarskránni, stæðum við verr í því að beita okkur í einhverju neyðarástandi, værum við bundnari af niðurstöðu stofnana af þessu tagi og mundum við binda hendur dómstólanna á Íslandi enn frekar heldur en ef við notuðum þá aðferð sem hér er?