145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum í meginatriðum sammála í þessum efnum. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá honum að dæmunum um það að í EES-samstarfinu sé þess krafist af okkar hálfu að við framseljum einhverja hluta ríkisvalds hafi fjölgað mjög á undanförnum árum. Ég hef áður í þessum ræðustól vakið athygli á því að það séu líkur á því að sú krafa og sú pressa muni enn aukast á komandi árum. Ég held að þetta sé staðreynd. Það á sér ýmsar skýringar, m.a. í stofnanauppbyggingu Evrópusambandsins þar sem völd eru færð frá framkvæmdastjórninni, sem er hliðstæð stofnun og ESA, yfir til sérstakra undirstofnana á ákveðnum málefnasviðum. Svo verður ekki heldur horft fram hjá því, eins og hv. þingmaður vék að, að EES-samningurinn hefur að inntaki breyst töluvert mikið frá því að stofnanakerfið (Forseti hringir.) var sett upp á sínum tíma. Það vekur (Forseti hringir.) auðvitað umhugsun um það hvort allar þær forsendur séu enn til staðar (Forseti hringir.) sem menn töldu þegar við gengum í (Forseti hringir.) EES-samstarfið. Þetta segi ég vegna þess (Forseti hringir.) að ég hef af (Forseti hringir.) því áhyggjur (Forseti hringir.) og er (Forseti hringir.) sammála hv. þingmanni um að (Forseti hringir.) við þurfum að vera á varðbergi í þessum efnum.

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta að ræðutíma.)