145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gekk hérna inn í þingsal þegar hv. þingmaður var í miðri ræðu þannig að ég veit ekki hvort hann fór inn á það sem mig langaði að spyrja hann um fyrr í ræðunni. Ég verð að segja að þetta mál fer að valda mér svolitlum vandræðum og áhyggjum vegna þess að ég skrifaði undir drengskaparheit að stjórnarskránni eins og aðrir hv. þingmenn. Þó að ég vilji nú reyndar skipta henni út fyrir nýja hyggst ég fylgja þeirri sem er í gildi hverju sinni, enda er það skylda mín sem þingmanns, háttvirts eða öðruvísi.

Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður viti til þess að með aðild að ESB værum við að skuldbinda okkur stofnunum í ríkari mæli en þetta. Mér sýnist þetta mál storka 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég átta mig ekki á hvernig hlutirnir geti orðið alvarlegri, hvernig er hægt að víkka þanþolið meira en að samþykkja lög sem brjóta kannski gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar sem varðar dómsvaldið. Mér finnst við þá þurfa að spyrja okkur í ljósi ræðu hv. þingmanns: Eru einhverjar aðrar stofnanir sem ganga lengra en þetta? Er eitthvað annað sem er algerlega skýrt að stenst ekki kröfu 2. gr. stjórnarskrárinnar? Er eitthvað annað sem við gætum ekki tekið upp? Ég vona að spurningin sé nógu skýr. Storkar þetta ekki stjórnarskránni eins mikið og mögulegt er? Það er kannski rétta leiðin til að orða þetta.