145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst við erum að tala um stjórnarskrána finnst mér þess virði að minna á ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs sem kveður á um Lögréttu, sem ég held að væri afskaplega heppilegt að hafa núna til þess að útkljá þetta mál með einhverjum almennilegum hætti. Mér þykir algerlega afleitt að þingmenn séu ekki vissir um hvort þetta brjóti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar eða ekki og hyggist í fúlustu alvöru lögleiða þetta. Ekki það að mér sé endilega ljóst hvað gerist ef við gerum það ekki.

En þá velti ég fyrir mér: Segjum sem svo að við lögfestum þetta og þessi stofnun fái þetta vald. Svo kemur upp neyðarástand. Þessi stofnun tekur einhverja bindandi ákvörðun. Það er kært til dómstóla. Dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að þetta brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar og þar af leiðandi sé þessi bindandi ákvörðun ekki bindandi. Neyðarástand er í eðli sínu neyðarástand, kannski sambærilegt því sem var 2008. En í slíkum kringumstæður vill maður ekki að það sé einhver lagaleg óvissa um það sem þarf að gera. Maður vill þá enn þá síður að það sem þarf að gera og er gert sé síðan úrskurðað ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá eftir á. Stjórnarskráin er nú til þess að setja slík mörk.

Getur hv. þingmaður eitthvað farið inn á það? Hvað ef við samþykkjum þetta mál, neyðarástand kemur upp, stofnunin tekur bindandi ákvörðun og sú bindandi ákvörðun er felld í Hæstarétti á grundvelli 2. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað gerist þá? (Gripið fram í.) Hvað gerum við þá?