145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar frumvarp sem byggt var á tillögum hins svonefnda stjórnlagaráðs var til umræðu í þinginu á síðasta kjörtímabili minnir mig að ég hafi vikið frekar vinsamlegum orðum að ákvæðinu um Lögréttu, taldi að það þyrfti kannski að útfæra það með einhverjum betri hætti, en að það væri margt vitlausara í frumvarpinu en nákvæmlega það ákvæði. Við höfum dæmi um það í ýmsum löndum að til eru sérstakir stjórnlagadómstólar sem hægt er að vísa álitamálum til. Við höfum það ekki í okkar stjórnlögum. Hinn endanlegi úrskurður um stjórnskipulegt gildi laga eða hvort þau standist stjórnarskrá er á endanum í höndum dómstóla og ekki reynir á það nema upp komi dómsmál þar sem reynir á slíka þætti. Fyrir fram gefið samþykki einhverrar stofnunar er ekki mögulegt samkvæmt okkar stjórnskipun.

Ég held að í ákveðnum tilvikum munum við þurfa að beita dómgreind okkar hér í þinginu til að meta hvort tiltekin lög eða ákvarðanir okkar samrýmist stjórnarskrá og verðum auðvitað að hlusta á ráðleggingar góðra manna í því sambandi. Ég tel að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir sé byggð á slíkum grundvelli.

Varðandi aftur hina spurningu hv. þingmanns, sem hann rifjar nú kannski upp fyrir mér þegar hann kemur … (HHG: Hvað gerist ef við sleppum þessu?)— Það þekki ég ekki. Ég hef eingöngu komið að þessu máli í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undanfarið rúmt ár. Þar hefur sá þáttur ekki verið til umfjöllunar, þ.e. hinn diplómatíski þáttur eða alþjóðasamskiptaþáttur, (Forseti hringir.) þannig að ég ætla ekki að svara því.