145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir tilfinningalíf hæstaréttardómara í þessu sambandi, en hitt er annað mál að þeir lenda náttúrlega oft í þeirri stöðu að þurfa að meta það hvort tiltekin lög eða lagaákvæði standist stjórnarskrá. Og ef mál kæmi til þeirra af þessum toga eða þar sem reyndi á þessa þætti yrði það ekki meira vandamál fyrir Hæstarétt að kveða upp sinn dóm um það en í öðrum tilvikum. Það sem ég vil árétta er að auðvitað kemur reglulega fyrir í störfum Alþingis að menn greini á um hvort einhver tiltekin frumvarpsákvæði eða lagaákvæði séu í samræmi við stjórnarskrá eða ekki. Fyrir fram geta menn fært rök fyrir niðurstöðu sinni. Menn geta fært rök með eða á móti, en menn geta ekki lagt einhvern einn einhlítan mælikvarða eða slegið einhverri niðurstöðu föstu í því sambandi.