145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má ekki túlka orð mín sem svo að ég álíti að það sé hægt að samþykkja hvað sem er á grundvelli tveggja stoða lausnar. Það þarf að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Það þarf að skoða það samkvæmt öðrum mælikvörðum líka, þar á meðal þurfa menn að leggja mat á það hvort framsalið er takmarkað og á afmörkuðu sviði og ýmsa fleiri mælikvarðar af því tagi þarf að skoða. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti að ég tel að svo sé í þessu tilviki. Allmörg dæmi eru um það í þessum gerðum að það reyni á með þessum hætti. Ég held hins vegar að það sé ekki verið að gefa Eftirlitsstofnun EFTA ótilhlýðilega víðtækar heimildir að þessu leyti, ég held að sé verið að gera það á tiltölulega afmörkuðum sviðum sem eiga við um mjög afmörkuð tilvik. Það er mælikvarði sem ég held að skipti máli í þessu sambandi.

Ég tók það fram í ræðu minni hér áðan að þetta mat finnst mér á engan hátt létt í þessu tilviki og hefur auðvitað kostað mig og marga aðra sem að þessu hafa komið heilmikil heilabrot. Þetta er sú niðurstaða sem ég hef komist að fyrir mitt leyti, en ég virði það ef menn eru annarrar skoðunar.