145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég hvorki í utanríkismálanefnd né stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en ég hef fylgst með þessari umræðu og verð að segja alveg eins og er að mér líður verr og verr eftir því sem á hana gengur. Gangur málsins er rakinn hér, að utanríkismálanefnd leitar álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fær það í sínar hendur og virðist byggja að einhverju leyti á því. En þegar svo er betur að gáð, eins og gerð er grein fyrir í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og það er reyndar fylgiskjal með nefndaráliti meiri hlutans, þá verð ég að segja alveg eins og er að ég fæ ekki alveg botn í það að menn telji þetta boðlegt gagnvart öðrum þingmönnum, því að þar segir einfaldlega að sumir nefndarmenn telji málið reyna á þanþol stjórnarskrárinnar og ýtrustu mörk en engu að síður sé þetta heimilt, en aðrir nefndarmenn geri það ekki. Þarna er ekki tilgreindur meiri hluti/minni hluti, bara sumir og aðrir. Var nefndin þverklofin í þessu máli? Er það þá álitið sem utanríkismálanefnd ætlar að byggja á?

Ég verð að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson sem þekkir þetta ágætlega frá ýmsum hliðum eftir veru í þessum þingnefndum báðum, hvort hann situr í þeim báðum enn þá, a.m.k. annarri þeirra, og hefur verið í stjórnarskrárnefndum í gegnum tíðina þar á meðal með þeim sem hér talar: Man hann eftir því að ætlast sé til þess að Alþingi samþykki mál sem stendur jafn tæpt að þessu leyti? Eru einhver fordæmi fyrir því að menn hafi verið í svona svakalegri óvissu með þetta? Hver á þá að njóta vafans? Það er kannski ekki búið að innleiða neina varúðarreglu í lög á Íslandi gagnvart stjórnarskránni, en ef þetta væri náttúran værum við væntanlega ekki í vafa um það að hún ætti að njóta vafans. Á ekki stjórnarskráin að vera í svipaðri stöðu? Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst eiginlega orðið afar ónotalegt að sitja hér undir þessu í kvöld, að sjálfsögðu er enginn einasti ráðherra viðstaddur frekar en venjulega. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann t.d. varðandi þetta með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Hvað þýða „sumir og aðrir“?