145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að hafa örfá orð um þetta mál en hyggst viðra áhyggjur mínar, sem eru verulegar, af þessu máli þegar kemur að atkvæðagreiðslu, þegar búist er við að fleiri þingmenn verði í salnum. Ég skil mætavel að fáir séu í salnum. Klukkan er hálf tólf, hún nálgast miðnætti og því finnst mér leiðinlegt að við séum að ræða þetta á þessum tíma vegna þess að þetta er afskaplega mikilvægt mál. Hér erum við að tala um mál sem brýtur kannski á 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem mér þykir fullkomlega ótækt. Ég vil af því tilefni láta það koma fram í þingræðu að gerðar hafa verið tillögur að því að eiga við svona spurningar. Ein slík tillaga felst í 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs sem fjallar um Lögréttu. Það er mikilvægt að hafa eitthvað slíkt. Ef ekki nákvæmlega það þá eitthvað annað. En mér finnst þetta verklag ekki ganga hjá hinu háa Alþingi gagnvart EES og gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Það er vitaskuld það sem ég hef mestar áhyggjur af. Við höfum svarið eiðstaf að því að fylgja stjórnarskránni og við eigum að efna það. Og við eigum að taka alvarlega það vandamál að Hæstiréttur hefur tilhneigingu til þess að ætla löggjafanum talsvert rými til þess að túlka hvað rúmast innan stjórnarskrár. Það eru takmörk fyrir því. Við þurfum að vita hvaða takmörk það eru. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég verð bara að fara aðeins með hana, með leyfi:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Þetta eru setningarnar sem koma á eftir þeirri að við séum lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þetta er grundvallaratriði stjórnarskrárinnar, virðulegi forseti. Við getum ekki leyft okkur að fara svona með hana. Ég átta mig fullkomlega á vandanum sem er til staðar, en við verðum þá líka að leysa hann. Við verðum að gera það með því að ræða lausnir eins og t.d. 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs, eða koma að einhverju framsalsákvæði í stjórnarskrá. Við verðum að gera það. Við getum ekki leyft okkur þetta verklag, það gengur ekki.

Nú veit ég að ég tala fyrir næstum því tómum sal þannig að ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég vildi bara koma þessu að hér í síðari umr. og mun koma aftur að þessum punktum þegar kemur að atkvæðagreiðslu. En ég verð að segja að ég er mjög hneykslaður yfir þeirri stöðu sem við erum komin í, alveg sama hverjum það er um að kenna.