145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja eftirtekt hv. þingmanns á því að hann alveg eins og við hin stendur frammi fyrir sömu spurningu og Lögrétta mundi hafa staðið frammi fyrir og hún snýst ekki aðeins um þetta mál heldur snýst hún líka um samanlögð áhrif annarra innleiðingarmála sem hafa haft í för með sér framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana að viðbættu því framsali sem hér er. Það er leiðbeiningin sem stjórnskipunarfræðingar gefa þinginu jafnan, einkum og sér í lagi Stefán Már Stefánsson prófessor sem ég held að hafi aldrei komið fyrir utanríkismálanefnd þegar ég hef átt sæti þar, og ég hef átt sæti þar þegar ég hef verið utan ríkisstjórna síðustu 25 árin, án þess að hann hafi lagt á það áherslu að við megum aldrei smætta málin niður í hið einstaka mál sem er á borðinu hverju sinni heldur verðum að leggja áhrif þess saman við önnur fyrri mál sem hafa hugsanlega haft í för með sér framsal. Það getur orðið annað svar og önnur útkoma úr þeirri jöfnu heldur en ef við skoðum þetta mál eitt og sér. Ég vildi koma því á framfæri að málið er flóknara en einungis það að ná til þess eina máls sem við erum að ræða hérna.

Við verðum líka að skoða þetta í samhengi við hin. Við verðum að skoða þetta í samhengi við hvað það var mikið sem við seldum af valdi úr landi þegar við gengum í Schengen. Það hefur verið slegið á það, metið, það liggur fyrir í álitsgerðum. Hvað fólst í því þegar við gerðum hina ýmsu samninga sem tengdust EES og inngöngunni þar á sínum tíma? Málið snýst auðvitað um það að Evrópusambandið hefur gjörbreyst. Það eru komnar miklu fleiri undirstofnanir sem fara með parta af því valdi sem framkvæmdastjórnin hafði áður. Það þýðir að það eru teknar ákvarðanir sem eru víðs fjarri framkvæmdastjórninni, teknar ákvarðanir þar sem við höfum enga aðkomu að lengur. Þetta er það sem gerir þetta mál svo erfitt og flókið og gerir það að verkum að við segjum að EES sé hreyfanlegt, síkvikt, dýnamískt. Menn gerðu ekki ráð fyrir því áður.

Við stöndum frammi fyrir þessari spurningu til þess að hefja (Forseti hringir.) okkur yfir allan vafa. Þarf ekki að breyta (Forseti hringir.) stjórnarskránni og setja þar inn framsalsákvæði?