145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vel má vera að það séu til betri leiðir og skilvirkari en 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs en hún er tilraun til þess að reyna að koma til móts við þetta vandamál. Þetta vandamál er greinilega viðvarandi, eins og hv. þingmaður virðist benda á. Það hvort taka eigi fyrir þetta mál eða fleiri skipti í sjálfu sér ekki öllu máli ef 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs hefði verið í stjórnarskránni í dágóðan tíma. Sömuleiðis hygg ég að hún gæti tekið slík álitamál upp sem hv. þingmaður nefndi við það að skoða þetta mál, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að Lögrétta mundi skoða það í samhengi við fyrri mál og önnur og stærri og EES kannski í heild sinni. Svo getur vel verið að við þurfum framsalsákvæði í stjórnarskrá.

Hvað sem því líður þykir mér ótækt að við séum að taka hér inn mál sem er eflaust ágætt efnislega, þ.e. alla vega markmið og sjálfsagt útfærslan á því, það má vel vera að þetta sé hið fínasta mál, en það verður að standast stjórnarskrá Íslands. Það er ekki valkvætt. Hvort sem það er Lögrétta eða Hæstiréttur eða hver sem ákveður það fyrir fram þá finnst mér mikilvægt að það liggi fyrir með einhverjum hætti áður en Alþingi samþykkir málið samkvæmt stjórnarskrá. Nú er Lögrétta í frumvarpi til stjórnarskrár sem gefur því vægið sem t.d. umsagnaraðilar geta aldrei haft gagnvart hv. nefndum þingsins eða alþingismönnum eða hvaðeina. Ég hygg því að það skipti verulegu máli að hafa það í stjórnarskrá, að það sé einhver ferill til að tryggja samræmi milli stjórnarskrár og löggjafar og þingsályktana sem við setjum hér.