145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

viðbrögð við skýrslu um aðgerðir í vímuvarnamálum.

[10:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Við höfum verið að bíða nokkuð eftir þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísaði til og það er ágætt að hún er komin fram. Við munum að sjálfsögðu fara yfir þær tillögur sem þar eru og snúa að innanríkisráðuneytinu, hvað það er þar sem hugsanlega gæti verið þess eðlis að það kallaði á breytingar á lögum. Við höfum áður rætt þetta tiltekna mál, ég og hv. þingmaður. Það er auðvitað þannig, eins og hv. þingmaður nefndi, og er alveg hárrétt, að fólk fer ekki í fangelsi vegna neysluskammta en hins vegar er það svo að ákvæði laga kveða á um að fangelsisvist sé við slíkum brotum. Mér finnst í þessu tilviki að líta þurfi til þess að þessi brotaflokkur er dálítið ólíkur öðrum að því leyti til að þarna er oft um að ræða fólk sem er í annars konar vanda, félagsvandamál, heilbrigðisvandamál, en ekki einungis þau hefðbundnu refsibrot sem við þekkjum.

Mér hefur þótt ástæða til að skoða löggjöfina með það fyrir augum, að líta til þess hvort eigi þá að aðlaga hana þeim raunveruleika sem í þessum málum er. Það hefur ekki verið gert til þessa. Við höfum að vissu leyti verið að bíða eftir þessari skýrslu í innanríkisráðuneytinu til að sjá hvað þar er á ferðinni til að geta undirbúið nánari athugun hjá okkur um það hvað skuli gerast næst. Mér finnst einboðið að vegna þessa munum við setja af stað vinnu við þetta. Það mun að sjálfsögðu taka einhvern tíma og er ekki á mínu færi að spá fyrir um hvernig það mun enda. Við þurfum að sjálfsögðu að taka til athugunar þau sjónarmið sem koma frá ríkislögreglustjóra í málinu. Okkur er ljúft og skylt að gera það. En í mínum huga er mikilvægt að horfa á þetta með þeim gleraugum.