145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

vegaframkvæmdir.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það gerðist ekki í gær að þörf væri á að setja peninga í vegakerfið. Þetta er stórt viðvarandi verkefni sem við Íslendingar eigum við að eiga ár frá ári og verður ekkert leyst í einni svipan eins og hv. þingmaður veit mætavel. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að álagið á vegakerfið hér á landi hefur verið gríðarlega mikið og hefur aukist. Það er ekki síst þess vegna sem við höfum verið að setja meiri peninga í vegamál. Það er ekki rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að ekkert hafi verið gert á þessu kjörtímabili. Við settum 1.800 milljónir sérstaklega í vegakerfið út af fjölgun ferðamanna eins og hv. þingmaður man sennilega vel eftir. Ekki síst fóru þeir peningar í viðhaldsfé, auk þess sem settir voru peningar í einstaka ferðamannastaði.

Nú er verið að bæta tæpum 11 milljörðum við á næstu tveimur árum samkvæmt samgönguáætlun, meirihlutatillögu sem ríkisstjórnin stendur að, í vegafé. Þar inni er líka töluvert há fjárhæð vegna einbreiðra brúa sem að sjálfsögðu er mikið verkefni fyrir okkur að takast á við og hefur reyndar verið á stefnuskránni árum og áratugum saman að fækka. Hv. þingmaður veit það líka ósköp vel að það verkefni hefur tekið tíma. Verið er að gera átak í þeim efnum. Sumar þessara einbreiðu brúa eru þess eðlis að þær fara þegar stytting vega verður og breyting verður eins og á sér til dæmis stað í Hornafirði þar sem verið er að gera tillögu um að færa veginn við Hornafjörð og losna við stórar einbreiðar brýr sem þar eru.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég einblíni hér á einkaframkvæmdir. Ég hef hins vegar verið að benda á að um leið og ríkið þarf að auka peninga í vegamál, sem það er nú í miklu betri færum til að gera vegna stöðu ríkissjóðs, þá er líka sjálfsagt að líta til annarra leiða þegar einstök verkefni eru skoðuð. Það er hreinlega skynsamlegt að gera það. Það leysir ríkið ekki undan þeirri ábyrgð sem á því hvílir, enda hefur enginn nokkurn tímann sagt að það standi til.