145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

undirbúningur búvörusamninga.

[10:54]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við höfum afgreitt hér á þinginu búvörusamninga sem við í Bjartri framtíð lögðumst gegn enda mjög lélegir samningar að okkar mati. Þar verður enn þá við lýði verðsamráð í mjólkuriðnaði. Í sauðfjárrækt er framleiðsluhvetjandi kerfi án þess að landsvæði séu neitt skilgreind eða reynt að stjórna beit. Það var algjört samráðsleysi við lykilaðila eins og neytendur og skattgreiðendur og yfir höfuð vantraust, að okkur finnst, á íslenskan landbúnað að treysta honum ekki í samkeppni við erlendar matvörur sem koma með háum tollum til landsins.

Hæstv. ráðherra hefur sagt í nýlegu viðtali að það hefði mátt gera betur í þessum samningum, það hefði þurft að undirbúa búvörusamninga betur. Mér leikur forvitni á að vita hvað það var sem hæstv. fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefði átt að gera betur í aðdraganda þessara samninga. Núverandi ráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið að það hefði þurft að rannsaka meira og að reikna betur út áður en samningarnir voru gerðir. Hvaða útreikninga er hæstv. ráðherra með í huga? Er hann að hugsa um áhrif offramleiðslu í sauðfjárrækt á verð til bænda? Út af því að það er þannig samkvæmt einföldustu hagfræðiformúlum sem við þekkjum að með því að framleiða meira og þar sem eftirspurnin er lítil þá einfaldlega lækkar verð til bænda eins og við sjáum nú þegar að er að gerast.

Hvað var það sem hefði átt að gera betur í undirbúningi við þessa samninga? Hvernig hyggst ráðherrann bæta þar um?