145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

undirbúningur búvörusamninga.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að það er margt nýtt í þeim búvörusamningum sem hér voru samþykktir. Það er verið að horfa til langrar framtíðar, verið að búa um kerfi sem tryggir að landbúnaður muni þrífast vel á Íslandi á komandi árum. Ýmislegt í ytri aðstæðum gerir stöðuna hins vegar flóknari í dag varðandi rekstur búa. Útflutningur er erfiðari o.s.frv. Við höfum líka séð núna að sláturleyfishafar hafa lækkað verð til bænda.

Þegar við gerum samninga er alltaf hægt að vera vitur eftir á og læra af þeim. Það sem ég á við, þegar ég tala um að hægt hefði verið að undirbúa þetta á annan hátt, er að það hefði kannski þurft að vera svigrúm til að reikna betur áhrif niður á einstök bú, að sjá hvaða áhrif þessi samningur hefði til dæmis á bændur sem voru búnir að kaupa sér bú fyrir ári o.s.frv. Þetta er vitanlega eitthvað sem er auðvelt fyrir mig að segja komandi að þessu öllu saman sem orðnum hlut. Ég er ekki að segja að forveri minn eða aðrir hefðu þurft að vanda sig betur. Ég er bara að segja að við þurfum að horfa til baka og læra hvað við hefðum getað gert öðruvísi í þessu.

Það er gaman að segja frá því að nú nýverið réðum við hagfræðing inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem er einmitt reiðubúinn til að fara í þessa útreikninga sem við höfðum ekki áður. Við erum því að bæta þá aðstöðu sem við höfum í ráðuneytinu til að fara í ýmsa útreikninga og þess háttar.

Samningurinn sem slíkur er góður fyrir landbúnaðinn að ég tel. Auðvitað er það þannig þegar skrifað er undir svo stóran samning að þá eru ekki endilega allir ánægðir með hann. Það er eðli slíkra samninga. Það er þá okkar, í þeim endurskoðunum sem fram undan eru í samningnum 2019 og 2023, að reyna að laga það sem hægt er að laga og hefur staðið í mönnum þegar að þessu hefur komið.

Ég þakka fyrirspyrjandi aftur fyrir þessa spurningu. Það er mjög mikilvægt að við fáum tækifæri til að ræða umhverfi landbúnaðarins. Í þeim samningum sem hér voru samþykktir er meðal annars kveðið á um að setja á fót ákveðinn hóp sem mun fara í rannsóknir og ræða hvernig umhverfi landbúnaðar (Forseti hringir.) getur verið til lengri tíma og framtíðar. Það er einmitt verið að vinna að því að setja hann á fót núna í ráðuneytinu.