145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[11:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fékk veglega vöggugjöf frá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Vöggugjöfin var endurreistur ríkissjóður. Hvað gerði hægri stjórnin við þá vöggugjöf? Hún notaði hana til að lækka veiðigjöld og vask á ferðaþjónustu, tvær blómstrandi atvinnugreinar sem hefðu átt að greiða meira til samfélagsins en þurftu ekki meðgjöf.

Hvað varð um lífeyrisþegana sem fengu öll fögru loforðin hér fyrir kosningarnar? Þeim var sagt að bíða eftir kerfisbreytingunni, sem hefur verið árum saman í smíðum og er nú komin inn í þingið. Hvað á að gera? Það á að setja 5,3 nýja milljarða inn í kerfið, það eru svo sem engin ósköp, á næsta ári. En í hvað eru þessir 5,3 milljarðar notaðir? Eru þeir notaði í þá sem hafa lægstar bætur? Nei, það fólk verður með óbreyttar bætur samkvæmt þessari kerfisbreytingu. Verða þeir nýttir til að auka lífsgæði og bæta kjör fólks sem býr við skerðingar vegna búsetuskilyrða? Nei, það fólk mun verða í verri stöðu og það er hópur sem fer stækkandi á Íslandi. Verða þeir nýttir til að bæta kjör örorkulífeyrisþega? Nei, sá hópur er algjörlega skilinn eftir. Það er sá hópur sem samkvæmt Félagsvísum Hagstofunnar er í mestri hættu á að lenda í fátækt á Íslandi. Svona notar hægri stjórnin vöggugjöfina sem hún fékk. Við höfnum algjörlega þessari forgangsröðun.

Ég spyr hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra: Er henni alvara með þessum boðskap til lífeyrisþega?