145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[11:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er með slæma samvisku því að í stað þess að svara spurningum mínum fer hún að spyrja mig spurninga. Er það ekki hjákátlegt, hæstv. forseti?

Varðandi stöðu örorkulífeyrisþega ber hæstv. ráðherra fulla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Örorkulífeyrisþegar vantreysta stjórnvöldum og ærin ástæða til. Af því að henni tókst ekki að troða ofan í kokið á þeim breytingum sem fela í sér algjöra óvissu um þeirra lífskjör og stöðu, m.a. með þessu starfsgetumati, þá missti hún það út úr vinnunni.

Samfylkingin ber mikla virðingu fyrir almannatryggingum og þeim sem reiða sig á framfærslu þess kerfis. Það er ekkert vandamál að vinna með okkur að breytingum á því kerfi. Það er hægri stjórnin sem hefur sýnt þeim sem reiða sig á það lítilsvirðingu.