145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórnarskrárbrot er grafalvarlegur hlutur. Hér spurði einn reyndasti þingmaður Alþingis, margreyndur ráðherra úr ríkisstjórn Íslands, starfandi utanríkisráðherra hvort fresta mætti þeirri atkvæðagreiðslu sem nú er að fara að hefjast vegna þeirra yfirlýsinga sem fram komu í gær. Framkvæmdarvaldið hafnaði þeirri beiðni. Nú biðla ég til forseta Alþingis að hlutast hér til. Þegar prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Björg Thorarensen, gefur opinbera yfirlýsingu í Morgunblaðinu í gær um að ekki sé hægt að teygja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins til að rúma þetta mál er það þannig.

Virðulegur forseti. Alþingi getur ekki gengið til atkvæða og greitt atkvæði gegn faglegu áliti helsta sérfræðings landsins um stjórnarskrána sem við höfum svarið eið að. Ég bið forseta að ganga í það að fresta þessari atkvæðagreiðslu þannig að nefndir þær sem eiga að fjalla um þetta mál fái að fara yfir þessi alvarlegu álitaefni og kalla til þá sem þarf að kalla til. Okkur ber umfram allt annað hér í þessu þingi að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins.